144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Menn geta auðvitað haft á því ólíkar skoðanir hvort eftirlitsnefndin hefði átt að leggja til harðari úrræði, svo sem að láta fara fram rannsókn á fjármálum sveitarfélagsins, en hins vegar verður í því sambandi að hafa í huga að sveitarstjórnin hefur aldrei tilkynnt nefndinni um fjárþröng eins og skylt er samkvæmt sveitarstjórnarlögum ef um slíkt er að ræða. Það hefur einungis gerst einu sinni, hæstv. forseti, og það var í tilviki Sveitarfélagsins Álftaness.

Sveitarfélögin bera sjálf ábyrgð á fjármálum sínum. Það er grundvallaratriði og hjá því verður ekkert komist. Það er verkefni þeirra að lögum. Við höfum hins vegar búið þennan mekanisma til sem eftirlitsnefndin er ef vandi steðjar að og það er akkúrat það sem við erum að horfa til núna.

Sveitarfélagið vinnur núna vinnu sína á grundvelli þess samkomulags sem gert var í desember og greinir betur þá stöðu sem uppi er í fjármálum sveitarfélagsins. Ég á von á því að þeirri vinnu muni ljúka í mars/apríl sem verði þá færð eftirlitsnefndinni til athugunar og þá fáum við betur að sjá hvernig staðan raunverulega er.

Það samkomulag sem gert var við innanríkisráðuneytið var til eins árs þannig að við höfum þetta ár til að átta okkur á stöðunni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við sjáum hvað út úr því kemur áður en við förum að hafa uppi stærri orð en þörf er á í því tilliti.

Við þurfum alltaf að gæta þess að sveitarfélögin eru með afar viðkvæma málaflokka. Þetta er það stjórnvald sem er næst okkur borgurunum með heimilin, börnin og þar fram eftir götunum þannig að auðvitað verður hver einasti maður í Reykjanesbæ var við það þegar vandinn er með þeim hætti sem hann hefur verið. Ég held að menn verði að beita þeim úrræðum sem tæk eru til að ná tökum á þessum vanda. Ég held að við ættum að bíða átekta þangað til við sjáum hvernig sú greining fer fram.