144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[16:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hygg að vandanum sé þá velt yfir á Alþingi og heilbrigðisráðuneytið eða velferðarráðuneytið þegar það hyggst fara að semja lög til að fylla upp í þessa þingsályktun og setja fyrirvara við því að menn geti farið til útlanda þegar þeir fá ekki þjónustu hérna innan stutts tíma. Mig minnir að talað sé um þrjá mánuði. En ljóst er að þegar fólk er veikt og fær ekki þjónustu þá leitar það allra leiða til að fá hana, sérstaklega ef hún er brýn. Þetta er náttúrlega mikil hvatning til heilbrigðisþjónustu allra landa til að vera ekki með biðlista. Um leið er þetta líka, eins og ég gat um, tækifæri fyrir Ísland til að fá til sín sjúklinga sem ekki fá þjónustu innan skikkanlegs tíma í sínu heimalandi. Þannig að þetta getur farið í báðar áttir. Engu að síður er þetta mikil krafa um að heilbrigðisþjónustan sé bæði hröð, góð og ódýr.