144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu á þessu lokafjárlagafrumvarpi sem er til staðfestingar á ríkisreikningi þó að ekki sé um að ræða sömu tölur. En vitandi að hæstv. ráðherra getur verið afar málefnalegur í skýringum og öðru langar mig aðeins að rifja upp þetta ár, 2013. Það er verið að fjalla um fjárlög fyrrverandi ríkisstjórna og lokafjárlög eftir reynsluna af þeim fjárlögum.

Þegar hæstv. ríkisstjórn tók við á miðju ári 2013 var því spáð að afkoma á fyrri hluta væri halli upp á 16 milljarða kr., vegna fyrri ríkisstjórnar. Nú langar mig að inna hæstv. ráðherra eftir því hverju var breytt sem lagfærði þetta svona mikið. Ég man ekki eftir neinum ráðstöfunum í niðurskurði eða breytingum hjá nýrri ríkisstjórn á síðari hluta ársins. Það var einfaldlega vanmetið hversu góðu búi fyrri ríkisstjórn skilaði á þeim tíma, menn skiluðu miklu betra búi en talað var um. Ég ætlast til þess að hæstv. ráðherra af einlægni sinni og með málefnalegum rökum staðfesti að ýmislegt gekk miklu hagstæðar en spáð hafði verið. Ég varð vitni að því þegar hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson steig fram og leiðrétti það þegar menn voru að hjóla í stofnanir úti um allt land fyrir það hversu illa hefði verið staðið að fjármálum, mikill halli á fyrri hluta ársins, en svo gufaði það allt upp á seinni hlutanum af því að útgjöld og tekjur dreifðust ekki jafnt á árið. Er það ekki nákvæmlega eins með umfjöllun núverandi ríkisstjórnar um fjárlögin á sínum tíma?

Hitt sem mig langar að spyrja um er yfirfærsla á heimildum, þ.e. á hallarekstri. Gert er ráð fyrir því í lokafjárlögum að fella niður skuldir á Landspítalanum sem ég held að hafi verið afar ráðlegt og ekki ganga að þeim síðar. En það er haldið eftir, samanber það sem stendur á bls. 78, margra ára halla eins og í Landbúnaðarháskólanum og öðrum slíkum stofnunum. Hefði ekki verið ástæða til að hreinsa þetta út þannig að menn væru ekki alltaf að fá skammir fyrir það að hafa ekki staðið í skilum hvað þetta varðar, alltaf sami gamli hallinn?