144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er mjög æskilegt að stytta þetta tímabil eins og hægt er. Reyndar tel ég að okkur hafi tekist að koma ríkisreikningi fyrr frá okkur en lengi átti við. Við erum þó fullseint hér að ræða lokafjárlög vegna 2013, ég er sammála því. Varðandi þróun heildarafgangs, að sýna hvernig hann þróast frá framlagningu frumvarps í gegnum allt ferlið, væri líka áhugavert að það væri skýr framsetning á þeirri þróun með lokafjárlögum eða í ríkisreikningi eftir atvikum.

Þó finnst mér oft og tíðum hafa verið gert of mikið úr umræðunni um breytingar á fjárlagafrumvarpinu frá því að það er lagt fram þar til það er samþykkt. Í almennri umræðu er það oft túlkað sem mikið veikleikamerki ef gjaldahliðin breytist til hækkunar í meðförum þingsins en fyrir því geta verið fullkomlega eðlilegar og skýrar ástæður sem ekki er ástæða til að tortryggja eins og oft er gert þegar menn eru í almennri umræðu með alhæfingar um þessi mál. Það getur beinlínis verið afleiðing af reiknuðum stærðum. Það þarf ekki að hafa verið ákvörðun um að auka raunútgjöldin með sérstökum nýjum útgjaldaliðum. Í því samhengi finnst mér þess vegna mikilvægt að það sé fyrst og fremst horft á það hvernig fjárlögin eru á endanum afgreidd frá þinginu og síður horft á það hvernig ferlið hefur verið frá framlagningu frumvarps til samþykktar nema þá að menn taki þá umræðu sérstaklega, brjóti hana upp og skilji á milli sérstakra ákvarðana sem leiða til útgjaldahækkunar og hinna sem eru reiknaðar stærðir.