144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna orða hennar um afskriftir skattkrafna árið 2012 og afskriftir skattkrafna árið 2013. Á áætlun ársins 2012 voru 10 milljarðar en skattkröfur voru afskráðar um 5 milljarða það ár. Það sama er í frumvarpinu 2013, þá eru afskriftir skattkrafna 10 milljarðar en fara í 22,5 milljarða.

Mig langar spyrja hv. þingmann af því að mér fannst hún gefa til kynna að það væru tilfærslur í pólitískri þágu að afskrifa úr 10 milljörðum í 22,5 og þá aftur í hina áttina úr 10 milljörðum í 5: Vill hv. þingmaður útskýra hvað hún á við þegar rætt er um að þetta sé í pólitískri þágu, vegna þess að ég veit að hv. þingmaður hefur líka sinnt störfum sveitarstjórnarfulltrúa og þar eru skattkröfur afskrifaðar í fjárhagsáætlun ef ljóst er að ekki næst að innheimta þær?

Ég bið hv. þingmann að útskýra hvað hún á við þegar talað er um að þetta sé í pólitískri þágu og þá í báðar áttir.