144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[17:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Bara stutt innlegg í umræðuna vegna þess að í upphafi hennar áður en henni var frestað voru umræður hér um það með hvaða hætti við innleiddum ýmsar samþykktir frá Evrópusambandinu og þá í gegnum EES-samninginn. Það sem vantaði kannski í þá umræðu og þarf auðvitað að leggja mikla áherslu á er að hér afgreiðum við tillögur sem Evrópusambandið ákvað 2011 og 2012, er síðan samþykkt í EES-nefndinni, sýnist mér, árið 2014 og er núna komið fyrir íslenska þingið. Þetta eru væntanlega tillögur sem hafa verið til skoðunar og ákvörðunar um það hvernig ætti að leggja þær fram frá árinu 2008, 2009 eða 2010 eða einhvers staðar löngu áður en þær koma hér fram.

Tekin hefur verið upp sú vinnuvenja hér í þinginu sem er mjög mikilvæg að þingnefndir fái til umsagnar mál, sem er verið að fjalla um og er verið að leggja fyrir hjá Evrópusambandinu, á því stigi er hægt að hafa á þau veruleg áhrif. Ég held að mikilvægt sé að við reynum að vanda okkur einmitt á því stigi að skoða í nefndunum hverju til dæmis eigi að hleypa áfram, hvaða athugasemdir við eigum að gera fyrir fram áður en málið er afgreitt endanlega frá ESB eða frá EES-nefndinni.

Hér er mál sem fer eins og aðrar tillögur, verið er að samþykkja þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðunar, síðan á eftir að fylgja því eftir í lagafrumvörpum og setja í frekari ramma. Af því að ég spurði hæstv. utanríkisráðherra hvert málið færi þá fer þetta eins og öll þessi mál til utanríkismálanefndar, en hér er verið að fjalla um heilbrigðismál og það er gríðarlega mikilvægt að málið fari til velferðarnefndar, og það var staðfest af hæstv. ráðherra að það sé nú venjan að mál fari til fagnefnda einnig. Þó að hér sé verið að samþykkja réttindi til að sækja sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri er heimilt að setja fullt af reglum og kvöðum, við getum haft þær strangar, við getum haft þær mjög opnar, og þar þarf þingið að fá tækifæri til að fjalla um það og við þurfum að vanda okkur í eigin lagasetningu til að framkvæmdin á þessu verði með þeim hætti sem við helst viljum.

Almennt vil ég segja um þær tillögur þar sem verið er að veita þau réttindi handa sjúklingum að sækja sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri að slíkir samningar eru einmitt til þess fallnir að veita aðhald innlendri heilbrigðisþjónustu, til dæmis ef biðlistar verða of langir er hægt að sækja þjónustu erlendis. Ef gæðin eru ekki nægjanleg er hægt að sækja hana erlendis. Væntanlega, eins og raunar hefur komið í ljós á milli landa eins og Bretlands og Frakklands, ef ég veit rétt, þá vanda menn sig bara betur, þ.e. hindra að menn þurfi að nota þetta. Þeir bæta þjónustuna, tryggja gæðin og tryggja styttri biðlista til að ekki komi til þess að menn þurfi að fara til útlanda nema í einhverjum einstökum undantekningartilfellum eða við einhverjar flóknari aðgerðir til að sækja sér þjónustu.

Ég vildi að þetta kæmi fram við fyrri umr., líka vegna þess að hingað kom hv. þm. Pétur H. Blöndal og gagnrýndi að ekki kæmu fleiri að umræðunni. Sú gagnrýni er þannig að venjulega við fyrri umr. getum við tjáð skoðanir okkar og þar með fylgt málinu eftir til nefndar, en þessi mál eru að því leyti öðruvísi að þau fara til nefndar til að staðfesta svona almennu regluna, síðan á eftir að fylgja henni eftir með lagafrumvörpum og nánari útfærslum sem kalla á mikla umræðu og mikla umfjöllun í þinginu.