144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

516. mál
[17:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn um flutningastarfsemi og fella inn í samninginn þrjár reglugerðir EB sem eru nánar tilgreindar í tillögunni sjálfri.

Með gerðunum eru settar sameiginlegar reglur um skilyrði sem þarf að uppfylla til að mega starfa sem flutningsaðili á vegum og um aðgang að mörkuðum fyrir alþjóðlega fólks- og farmflutninga á vegum. Þá er stefnt að því að stuðla að skilvirkum vöru- og fólksflutningum á vegum og búa til sanngjörn samkeppnisskilyrði.

Innleiðing gerðanna kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir því að nauðsynlegra lagaheimilda til að innleiða reglugerðirnar verði aflað í nýjum frumvörpum til laga um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni annars vegar og hins vegar um farmflutninga á landi, sem meðal annars leysa af hólmi lög nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi. Frumvörpin hafa nú þegar verið lögð fram á Alþingi, samanber mál 503 og 504, og mælti hæstv. innanríkisráðherra fyrir þeim í gær. Ekki er gert ráð fyrir því að innleiðing tveggja gerðanna hafi mikil áhrif hérlendis enda er gildissvið þeirra takmarkað við akstur yfir landamæri. Umgjörðin mun hins vegar hafa nokkur áhrif í för með sér enda kveður hún á um sameiginlegar reglur til að mega starfa sem flutningsaðili á vegum. Með það að markmiði þurfa aðildarríkin að halda rafræna skrá yfir fyrirtæki sem stunda farm- og fólksflutninga á vegum og hafa fengið til þess leyfi frá yfirvöldum, en uppsetning og rekstur slíkrar skráar mun hafa kostnað í för með sér.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.