144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

516. mál
[18:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka af tvímæli um það að hæstv. utanríkisráðherra er ekki pirraður á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða því að fylgja honum. En ég hlýt að spyrja hann, vegna síðustu orða hans um skapandi hugsun: Er það þannig að hæstv. utanríkisráðherra telji að reyna eigi að draga úr orðalagi í þeim tilskipunum sem innleiddar hafa verið og innleiddar verða, að það eigi með einhverjum hætti að breyta merkingu þeirra við þýðingu og innleiðingu, að fagráðuneyti hafi sérstakt svigrúm til að milda tilskipanirnar frá því sem þær eru þegar þær eru settar?

Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt frá utanríkisráðherra til fagráðuneytanna hvort þau hafa eitthvert slíkt skapandi svigrúm til að milda orðalag tilskipana í meðhöndlun sinni. Ef það er afstaða ráðuneytisins og fagráðuneytanna þá kallar það á allt aðra meðhöndlun á tillögum þeim sem koma inn frá ríkisstjórninni um EES en verið hefur hér í þinginu þar sem menn hafa bara treyst því að gerðirnar séu innleiddar eins og þær eru settar fram en ekki með neinum sérstökum skapandi hætti af hálfu ráðuneytanna.