144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

plastpokanotkun.

166. mál
[18:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fara nokkrum orðum um þingsályktunartillögu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur um að draga úr plastpokanotkun. Þetta er málefni sem hefur víða verið til umfjöllunar. Ýmis sveitarfélög hafa sett sér markmið, svo dæmi sé tekið, um að draga úr plastpokanotkun, efnt til plastpokalausra daga og ég man ekki betur en að ég hafi séð slíkar fregnir frá Hafnarfirði og Garðabæ sem var með slagorðið Temdu þér taupoka, ef ég man rétt, og merkileg þótti mér frétt sem ég sá í fyrra um að Rúanda hefði ákveðið að gerast plastpokalaust land, plastpokalaust Rúanda. Það er ekki svæði sem maður tengir endilega við slík átök þannig að þetta er víða reifað og rætt.

Vissulega er það rétt sem hér kemur fram, það er mikið framleitt af plastpokum og flestir þeirra, eins og kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, eru nýttir einu sinni. Það er ekki mikil notkun á þessum plastpokum. Hins vegar held ég að það sé rétt sem bent var á í umsögnum um tillögu svipaðs efnis frá hv. þáverandi þingmanni Margréti Gauju Magnúsdóttur, þar sem lagt var til að gera úttekt á plastpokanotkun með það að markmiði að draga úr henni, það er líka mikilvægt að við skoðum valkostina. Við vitum að plastpokarnir brotna illa niður í umhverfinu og það eru umhverfisáhrifin sem af þeim stafa. Það sem þyrfti að gera er að skoða þetta ferli heildstætt, þ.e. hvernig plastpokarnir eru framleiddir, hvaða umhverfisáhrif sú framleiðsla hefur og bera saman við aðra kosti.

Sjálf hef ég verið mikil talskona þess að skipta yfir í taupoka en bent hefur verið á að þá þurfi að nota mjög mikið til að maður nái tilætluðum árangri hvað varðar umhverfisáhrif. Að sjálfsögðu munu þau skila sér ef við hreinlega tökum plastpokana út og allir skipta yfir í taupoka. Þá væntanlega næst árangurinn en það sem hefur verið bent á er að meðan plastpokar eru í boði og taupokarnir gleymast heima þurfi að meta áhrifin af því hversu mikið þurfi að nota taupokana í staðinn fyrir plastpokana og annað slíkt. Þetta er nokkuð sem væri áhugavert að hv. umhverfis- og samgöngunefnd færi yfir í umfjöllun sinni um málið. Ég vona svo sannarlega í ljósi þess að þetta mál hefur verið talsvert til umræðu, bæði á vettvangi sveitarfélaganna og bara almennt í stjórnmálunum, að hv. nefnd nái að fjalla um málið og fara yfir þessa þætti þannig að við náum tilætluðum árangri.

Ég veitti því athygli að umsagnaraðilar um tillögu hv. þáverandi þingmanns Margrétar Gauju Magnúsdóttur komu fæstir úr umhverfisgeiranum, voru fyrst og fremst sveitarfélög sem hafa tekið upp eða verið með átök á þessu sviði en einnig komu umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sorpu þar sem settar voru á blað ýmsar spurningar. Það hefði því verið mjög áhugavert að fá líka umsagnir frá Landvernd og öðrum aðilum á sviði umhverfismála sem hafa skoðað þessi mál. Ég vænti þess að umhverfis- og samgöngunefnd skoði það.

Þessi tillaga er angi af miklu stærri umræðu sem lýtur að neyslu og sóun í samfélaginu. Við erum núna að taka þátt í samnorrænu verkefni um matarsóun sem er alveg feikilega merkilegt verkefni þar sem bent hefur verið á að allt að þriðjungi matvæla sé hent í Evrópusambandinu. Ísland sver sig væntanlega í ætt við ríki Evrópusambandsins hvað það varðar. Annað fyrirbæri sem er nátengt matarsóuninni er tískusóun svokölluð, þ.e. fólk kaupir mikið magn af fötum sem eru kannski nýtt sjaldan, fellur fyrir því að kaupa fimm gallabuxur á verði þrennra eða eitthvað slíkt, hugsar ekki út í þann umhverfiskostnað sem hefur orðið við framleiðslu flíkurinnar, við hvaða aðstæður verkafólk býr sem framleiðir þessar flíkur sem oft eru gríðarlega bágbornar eins og við höfum séð í fréttum þegar fataverksmiðjur hrynja með þeim afleiðingum að fjöldi fólks deyr þar sem það vinnur við algjörlega óviðunandi aðstæður við að framleiða ódýran tískufatnað handa Vesturlandabúum. Þetta er allt angi af sömu umræðu og lýtur að neyslumynstri. Ég er nokkuð viss um að allir hv. þingmenn þekkja þá tilfinningu að opna eldhússkáp og út hrynur eitthvert plastpokafjall, svo kaupir maður eitthvað og fer með heim í plastpoka sem maður stingur inn í skáp og svo, eins og hér kemur fram, er sá plastpoki aldrei notaður aftur. Jafnvel er svo bara, og vonandi, farið með hann í endurvinnsluna en honum ekki hent í almenna sorpið þegar tekið er til í skápunum einu sinni á ári . Þetta er angi af þessu neyslumynstri þar sem stöðugt er keypt meira og meira án þess að það sé endilega þörf fyrir það og án þess að hugað sé að heildaráhrifunum á umhverfið, án þess að hugað sé að vistsporinu sem við skiljum eftir okkur með þessari neyslu.

Ég fagna þeirri tillögu sem hér er fram komin. Ég veiti því athygli að hér eru meðflutningsmenn úr öllum flokkum þannig að ég hefði vænst þess að þessi tillaga fengi framgang á þinginu í ljósi þess að bak við hana er þverpólitískur stuðningur en mér finnst mikilvægt, eins og ég segi, að þegar við ræðum þessi mál gerum við það í stóra samhenginu, að við séum meðvituð um að markmið okkar er að minnka vistsporið sem við skiljum eftir okkur. Þess vegna er mikilvægt að farið verði yfir þær athugasemdir sem komu fram í umsögnum um heildarumhverfisáhrif plastpokanna og síðan að við stígum markviss skref í framhaldinu til að ná tilætluðum árangri. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það verði gert í hv. nefnd og vona það svo sannarlega. Hér er að vísu lagt til að aðgerðaáætlun verði birt fyrir 1. mars 2015. Hann er eftir viku þannig að ég á ekki von á því að sú dagsetning standist en ég vona að þetta verði samþykkt á þessu þingi þannig að við fáum að sjá marktæk skref á þessu ári. Það væri ánægjulegt og óskandi að við gætum farið í fleiri málaflokka þessu tengdu með sama hugarfari.