144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[19:00]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er skemmst frá því að segja að áætlanir hafa ekki verið kláraðar en hins vegar í samvinnu við eða í undirbúningi að aðalskipulagi í Reykjavík, sem var samþykkt á síðasta ári, og aðalskipulagsvinnu fleiri sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og nú svæðisskipulagsvinnu sem er í fullum gangi á höfuðborgarsvæðinu þá hafa menn verið að skoða þessa möguleika. Það hefur verið passað upp á að loka ekki fyrir þá möguleika að gera lestartengingar við miðsvæði Reykjavíkur og við Keflavík þannig að ekki verði byggt fyrir eða lokað á svæði þar sem slík lest þyrfti að fara í gegn.

Þessi vinna er í raun og veru enn þá í fullum gangi og mér er kunnugt um það að á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er verið að skoða og menn eru að kynna sér hvernig þessum málum hefur verið háttað í borgum annars staðar Norðurlöndum og í löndunum í kringum okkur. Menn eru þá opnir fyrir því að skoða léttlestakerfi og jafnvel kynna sér jarðlestarkerfið, þótt þau séu sennilega fulldýr fyrir ekki fjölmennari svæði, en einnig kerfi sem eru að ryðja sér til rúms, sérstaklega í minni borgum í Suður-Ameríku en líka víðar, sem eru eins konar strætólestarkerfi, þ.e. lokuð kerfi strætisvagna sem keyra á sérstökum akreinum og stoppa á ákveðnum stöðum á svipaðan hátt og lestir en eru þó í bílum. Þau kerfi eru mikið ódýrari í bæði uppsetningu og rekstri.