144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

seinkun klukkunnar og bjartari morgnar.

338. mál
[19:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg og taka þátt í umræðu um þingsályktunartillögu um að Alþingi feli hæstv. ríkisstjórn að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund. Mér finnst þetta um margt hið áhugaverðasta mál og verð að segja að það gladdi mig svolítið að heyra hv. flutningsmann segja að hann legði til að tillögunni yrði vísað til hv. velferðarnefndar hvar ég sit vegna þess að mér finnst á þessu ýmsar hliðar sem ég mun hafa gaman af að skoða. Ég mun leggja mitt af mörkum þar til að þetta fái góða og efnislega umfjöllun.

Að því sögðu vil ég jafnframt segja að ég er ekki sjálfkrafa á þeirri skoðun að breyting á skráningu klukkunnar sé endilega til góðs þó að mér finnist það allrar skoðunar virði, eins og ég sagði rétt áðan. Það sem við græðum, ef svo má segja, á núverandi skráningu er bjartara síðdegi. Mér finnst mikilvægt að við skoðum einnig þann hluta af málinu, það verði vegið og metið og reynt að skoða í starfi nefndarinnar. Þó að við breytum skráningu klukkunnar breytum við ekki svo glatt legu landsins og þar með dimmum eða björtum klukkustundum yfir sólarhringinn þó að við getum að einhverju leyti stýrt því klukkan hvað þær eru.

Ég vil líka taka fram að ég er alls ekki fylgjandi því, eins og hefur stundum verið nefnt í umræðu um klukkuna, að fara akkúrat í hina áttina og flýta henni. Það held ég að sé alveg kolröng leið. Ég held að við eigum að taka fyllilega til greina og skoðunar þetta með líkamsklukkuna en við þurfum líka að hugsa um hvaða áhrif það mundi hafa í hina áttina. Þegar börn ljúka skóla er orðið dimmt fyrr og það getur haft ýmis áhrif líka á ýmsa félagsþátttöku. Nógu dimmt er oft þegar börnin koma heim úr skólanum og þá lengjum við það í þann endann og þess vegna held ég að líka sé mikilvægt að skoða vel þær rannsóknir sem eru til um skammdegisþunglyndi og reyna að greina hvað af því stafar af skráningu klukkunnar og hvað mögulega megi bara rekja til okkar norðlægu legu á hnettinum. Við erum ekki alveg komin svo langt í tækniframkvæmdum að við getum farið að draga okkur á suðlægari slóðir þó að maður hugsi stundum þegar farið er að síga á seinni hluta febrúar til þess að það gæti verið svolítið gaman og gott.

Mér finnst þess vegna mikilvægt að við veltum upp þeim möguleika að láta skólana hreinlega byrja seinna á morgnana. Líkt og hv. flutningsmaður Páll Valur Björnsson nefndi í framsöguræðu sinni væri kannski hið fullkomna kerfi að seinka bæði klukkunni og skólanum. Mér finnst alveg koma til greina að spá í hvaða áhrif það mundi hafa að seinka bara skólanum. Eins og ég segi finnst mér þetta spennandi mál sem eigi að taka til góðrar og efnislegrar skoðunar. Það á að fá góða umfjöllun og ég hlakka til að fást við það í nefndarstörfunum en vil þó ekki, eins og ég hef rakið hérna, lýsa mig fylgjandi því á nokkurn hátt. Ég vil að við skoðum þetta og vonandi kemur til þess að við greiðum atkvæði um það hér í vor með vonandi betri og gagnmerkari upplýsingar í höndunum til að byggja á.