144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

396. mál
[19:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með ræðuhöldum enda fæ ég tækifæri til að koma að málinu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en það er auðvitað mikilvægt að ráðherrar skýri satt og rétt frá í þinginu. Það er algert grundvallaratriði til að þessi samkoma geti starfað eins og hún á að gera. Um leið er dapurlegt ef það er upplifun nýs þingmanns á þinginu að herða þurfi á því í lögum. Þá vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort það sé reynsla hv. þingmanns af störfum í þinginu frá því í kosningunum vorið 2013 að hér hafi ráðherrar haldið upplýsingum leyndum sem hefði með þessari breytingu verið skylt að gera grein fyrir, hvort hann hafi orðið vitni að því að ráðherra hafi veitt villandi upplýsingar og hvaða tilfelli það eru þá eða hvort hann hafi upplifað það í þingstörfum að ráðherra hafi beinlínis sagt þinginu ósatt, þ.e. hvort það séu skýr tilefni héðan úr þinginu sem gefa honum tilefni til að flytja málið.

Síðan er eðlilegt að spyrja út frá varúðarsjónarmiðum hvort þingmaðurinn hafi ekki áhyggjur af því að þetta geti verið matskennt, þ.e. hvað sé villandi, hvað sé rétt, hvað sé nauðsynlegt að leggja fram af upplýsingum og hvað ekki.