144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

efling virkniúrræða fyrir atvinnuleitendur.

122. mál
[19:45]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka þátt í umræðu um þingsályktunartillögu um eflingu virkniúrræða fyrir atvinnuleitendur þó að ekki væri nema vegna þess að ég gerði þessa tillögu, sem þá hafði líklega nýverið verið dreift hér í þinginu, að umræðuefni í umræðu um þriðja þingmálið sem var á dagskrá í haust, þ.e. um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2015. Mig langar núna, þegar þessi tillaga er komin á dagskrá, að taka upp þráðinn, ef svo má segja, frá því sem þá var.

Fyrst langar mig þó að segja að við erum líklega, geri ég ráð fyrir, öll sammála um nauðsyn þess að efla virkni og virkniúrræði fyrir atvinnuleitendur þó að okkur geti greint á um hvaða leiðir séu bestar eða líklegastar til að skila árangri. Það sem kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir, ef svo má segja, er að þessi tillaga kom fram og henni var dreift á sama tíma og við vorum að ræða ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins þar sem verið var að skerða eða draga úr ýmsum virkniúrræðum, svo sem virkniúrræðinu Virk sem hefur verið samstarfsverkefni verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins, það var verið að skerða þar úrræði. Á sama tíma voru hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, sem studdu þessar skerðingar í ýmsum forsendum fjárlagafrumvarpsins, að tala fyrir auknum virkniúrræðum með þingsályktunartillögu.

Eins og þetta sneri við mér fannst mér miklu eðlilegra að hætta við skerðingarnar sem þarna voru boðaðar. Það var ekki bara hjá Virk sem var verið að skera niður heldur var í raun verið að veikja menntakerfið og bóknámi í framhaldsskólum var í raun lokað fyrir þá sem voru 25 ára og eldri, í praxís var því lokað. Ég sé að hv. þingmaður hristir höfuðið en það var þannig í praxís að skólarnir hafa ekki fjárhagslega burði til að taka við þessum nemendum þannig að þar var verið að loka á ákveðið virkniúrræði. Á sama tíma var verið að vísa fólki inn í dýrara úrræði, þ.e. einkaskóla. Það er langt í frá sjálfgefið að fólk hafi efni á því að fara í skóla með háum skólagjöldum.

Svo er eitt annað sem ég vil gera að umræðuefni. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Í þessu skyni er nauðsynlegt að nýttar verði lagaheimildir sem skylda atvinnuleitendur til að taka þátt í virkniúrræðum.“

Eins og ég skil þetta er hér verið að boða að setja megi skilyrðingu fyrir því að atvinnuleitendur fái einhvers konar bætur eða greiðslur frá hinu opinbera. Mér finnst mikilvægt að við ræðum þetta og setjum í samhengi við frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um skilyrðingu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem við eyddum drjúgum tíma í að ræða hér einn eftirmiðdag. Ég er þeirrar skoðunar að skilyrðing, þ.e. að þvinga fólk í virkniúrræði, sé einfaldlega ekki leið sem sé vænleg til árangurs og vinni í raun á móti því að vera virknihvetjandi.

Reynsla annarra landa, eftir því sem ég best veit, er sú að ungt fólk hafi til að mynda litið á virkniskilyrðingar sem refsingar, sér í lagi þegar fólki hefur verið gert að taka þátt í einhvers konar vinnu, t.d. eins og nefnt er í greinargerðinni, sem er þá aðstoð við þrif á búningum fyrir íþróttafélög, sem sagt einhvers konar — ég vil ekki segja atvinnubótavinna en þar sem fólk er þvingað til að taka þátt í störfum sem yfirleitt hafa verið unnin í sjálfboðavinnu; að reynslan hafi verið eða geti verið sú að við ýtum fólki, sem við þurfum að koma í virkni, út á jaðarinn, að við förum í þveröfuga átt og drögum úr samfélagsþátttöku þess. Það finnst mér vera hið versta mál. Þá erum við að vinna gegn markmiðinu, sem, eins og ég sagði í upphafi máls míns, ég held að við séum öll sammála um, þ.e. að við viljum efla virknina, en ég hef efasemdir um þær leiðir sem hér eru lagðar til eða boðaðar. Eins og ég sagði áðan þá finnst mér það vera svolítið skrýtið að byrja á því að samþykkja að skera niður virkniúrræðið og koma svo örstuttu seinna með þingsályktunartillögu þar sem aftur er verið að hvetja til eflingar virkniúrræða.