144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

sjávarútvegsmál.

[13:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra en vil jafnframt hvetja hann til dáða. Þetta er auðvitað ekki mál sem hæstv. sjávarútvegsráðherra, þótt öflugur sé, valdi einn heldur þarf atbeina ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins alls til í því efni. Í gangi er vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Tillögur um nýtt ákvæði um þjóðareign á auðlindum þurfa að líta dagsins ljós á næstu vikum ef hægt á að vera að koma þeim í frumvarpsform í haust og fá þær samþykktar í tíma þannig að hægt sé að leggja þær fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum næsta vor.

Ég vil líka hvetja hæstv. forsætisráðherra til að vera djarfur í hugsun og ekki lúta að litlu í þessum samningum. Það þarf alvöruþjóðareignarákvæði sem tryggir raunveruleg yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindinni. Það er vert að muna að hæstv. forsætisráðherra þarf ekki að reiða sig á Sjálfstæðisflokkinn í því efni því Framsóknarflokkurinn og stjórnarandstaðan eru sameiginlega með 2/3 atkvæða í þinginu.