144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

kjaraviðræðurnar fram undan.

[13:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum nánast sammála um mikilvægi þess að forgangsraða á þann hátt að sérstaklega verði komið til móts við fólk með lægri tekjur og millitekjur og að það sé vel gert, jafnvel best gert, með áherslu á krónutöluhækkanir. Ýmsar vísbendingar eru um að þrátt fyrir að krónutöluhækkanir hafi á stundum leitt til launaskriðs í formi prósentuhækkana upp launastigann hafi slíkar hækkanir engu að síður oft og tíðum reynst vel.

Nú er nýkomin út skýrsla heildarsamtaka á vinnumarkaði sem heitir Í aðdraganda kjarasamninga. Þar kemur fram að launadreifing er jafnari á árinu 2014 en hún var árið 2006. Það er ekki hvað síst þakkað áherslu á krónutöluhækkanir. Þannig að: Já, virðulegur forseti, eins og ég hef ítrekað lýst yfir tel ég að krónutöluhækkanir séu skynsamleg nálgun í þeim kjarasamningum sem í hönd fara.

Hvað varðar spurninguna um lægstu taxta erum við eflaust líka sammála um það, ég og hv. þingmaður, að 300 þús. kr. eru ekki há laun, en það þarf líka að huga að því í því sambandi að menn geti náð lágmarkslaunum með eðlilegu vinnuframlagi en að launastrúktúr þróist ekki yfir í það að menn séu iðulega með mjög lág grunnlaun en stór hluti launanna, jafnvel helmingur tekna á endanum, komi fyrir ýmsar viðbótargreiðslur. Ég held að það væri æskilegt að grunnlaunin nægðu fólki til að standa undir lífsnauðsynjum.