144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

kjaraviðræðurnar fram undan.

[13:44]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef lýst því ítrekað yfir að undanförnu að ríkisstjórnin sé mjög opin fyrir tillögum, ábendingum og lausnamiðaðri nálgun frá aðilum vinnumarkaðarins, þ.e. við erum opin fyrir hugmyndum um hvað við getum lagt af mörkum. Þar skiptir augljóslega máli hvernig ríkið hagar gjaldtöku, skattlagningu og þar fram eftir götunum. Þar höfum við svo sannarlega verið til í að stilla saman strengi við aðila vinnumarkaðarins en húsnæðismál hafa líka verið nefnd sérstaklega. Ekki er ólíklegt að húsnæðismálin blandist eitthvað inn í þær viðræður sem í hönd fara. Þar hefur mikil undirbúningsvinna átt sér stað af hálfu stjórnvalda eins og hv. þingmaður þekkir og vonandi má hún verða til þess að liðka fyrir samningum og bæta um leið stöðu bæði leigjenda og þeirra sem vilja fjárfesta í húsnæði.