144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

þjóðaröryggisstefna.

[13:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að skipting verkefna í Stjórnarráðinu, þegar kemur að varnar- og öryggismálum, sé með ágætum eins og er í dag. Eflaust má skýra einhverja hluti. Ég held að varnarmálin séu ágætlega komin í utanríkisráðuneytinu og mál sem lúta að innanríkismálum þar sem þau eru í dag. Vissulega skarast þessi málefni annað slagið eða geta gert það.

Varðandi þjóðaröryggishlutann, þjóðaröryggisstefnu og þá vinnu sem við fórum í í þessari nefnd, má alveg velta fyrir sér, af því að hv. þingmaður nefndi hryðjuverkaógnina, hvort hún sé meira áhyggjuefni í dag en hún var fyrir ári eða tveimur árum, hver þróunin í heiminum hefur orðið á þeim tíma o.s.frv. Þetta er mál sem við þurfum að fara reglulega yfir, hvernig við forgangsröðum og metum áhættu á hverjum tíma.

Ég ætla ekki að kveða upp úr um það hvort lögregluyfirvöld eða aðrir eigi að hafa þessar heimildir eða aðrar. Ég verð hins vegar að segja að það er mín skoðun, og kemur því ekki við (Forseti hringir.) hvort ég er utanríkisráðherra eða ekki, að ég tel að lögreglan eigi að hafa nauðsynlegar heimildir til að geta sinnt því að verja okkur borgarana en hún þarf að fara að vel með þær heimildir.