144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

afnám verðtryggingar.

[13:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur nú svarað fyrirspurn minni um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til afnáms verðtryggingar. Svar hæstv. ráðherra á þskj. 969 hlýtur að valda vonbrigðum, jafnvel örvæntingu, meðal framsóknarmanna.

Í svari ráðherrans kemur ekkert nýtt fram. Svar hæstv. ráðherra er vart annað en endurtekið efni af heimasíðu Stjórnarráðsins frá því í maí 2014. Staðreyndin er sú að verðtrygging hefur fest sig í sessi frá því að núverandi ríkisstjórn tók við enda virðist eina aðgerð stjórnarinnar til að auka fjölbreytni á lánamarkaði vera frumvarp um gengistryggingu lána. Lág verðbólga og hækkandi húsnæðisverð ættu þó að vera kjöraðstæður til að draga úr vægi verðtryggingar á lánamarkaði en það hefur ekki verið nýtt sem skyldi. Eina handfasta tillaga ríkisstjórnarinnar er að banna verðtryggð lán til lengri tíma en 25 ára en sú tillaga mun ekki auka hlut óverðtryggðra lána á lánarmarkaði. Mjög ólíklegt er að þeir sem í dag taka 40 ára verðtryggð lán munu flytja sig yfir í óverðtryggð lán. Í raun mundi sú aðgerð fyrst og fremst draga úr húsnæðisöryggi fólks með lægri tekjur því mánaðarleg greiðslubyrði yrði hærri og hæstv. húsnæðismálaráðherra skilar auðu þegar kemur að eflingu leigumarkaðar þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar ekki augljós svik við afdráttarlaus kosningaloforð Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar?