144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

afnám verðtryggingar.

[14:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Almenn verðtrygging lána er kerfisvandi á íslenskum fjármálamarkaði. Á síðasta kjörtímabili fjölgaði þeim sem tóku lán án verðtryggingar en frá því að hæstv. forsætisráðherra tók við embætti hefur sú þróun snúist við. Það er óumdeild staðreynd. Það er einnig staðreynd, þó að erfitt sé fyrir hæstv. ráðherra að viðurkenna það, að ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að sporna við þessari þróun. Þetta aðgerðaleysi, þessi augljósu svik við afdráttarlaus kosningaloforð Framsóknarflokksins, vekur furðu.

Leiðréttingin svokallaða var bein afleiðing verðtryggingar lána. Það er því mikilvægt að minnka vægi verðtryggingar og auka fjölbreytni á lánamarkaði. Hæstv. ráðherra lofaði kjósendum því að afnema verðtryggingu en getur ekki einu sinni minnkað vægi hennar á markaði. Ég endurtek því spurningu mína: Er aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar ekki augljós svik (Forseti hringir.) við afdráttarlaus loforð Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingarinnar?