144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

örnefni.

403. mál
[14:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst nýta tækifærið til að fagna því að þetta mál sé komið á þann stað að við sjáum nú fyrir að það verði afgreitt. Eins og kemur fram í frumvarpinu má rekja forsögu þess til hvatningar örnefnanefndar frá árinu 2011 þar sem nefndin ályktaði um nauðsyn þess að endurskoða lög um bæjanöfn o.fl. eins og þessi lög heita núna. Í kjölfarið var ráðist í þessa vinnu. Í tíð minni sem mennta- og menningarmálaráðherra árið 2012 var starfshópurinn skipaður og hann hefur þurft að fást við alveg feikimörg skemmtileg viðfangsefni við samningu þessa frumvarps til laga um örnefni.

Tvisvar áður hefur það verið lagt fram og það var lagt fram í þriðja sinn með lítils háttar breytingum frá upphaflegu frumvarpi. Meginefnið er þó nokkuð skýrt, það að setja heildstæða löggjöf um þennan hluta menningararfsins sem er kannski ekki mikið til umræðu í daglegu tali okkar en þó man ég eftir því að þegar gos hófst á Fimmvörðuhálsi, og það var í minni tíð sem ráðherra, varð mikil umræða um það hvað hnúkarnir skyldu heita. Menn voru með ýmsar hugmyndir en af því að fjárhagsstaða ríkisins var bágborin á þeim tíma komu upp ýmsar hugmyndir um að við mundum selja örnefnin, bjóða þau upp á eBay og þeir gætu keypt örnefnin sem byðu best og annað slíkt. Ýmsar slíkar hugmyndir bárust á mitt borð og ég þurfti að taka nokkur ágætisviðtöl út af því. Þá fór ég líka að hugsa: Hvað eru þessi örnefni sem við erum með allt í kringum okkur, hvort sem það eru götunöfn eða önnur staðarnöfn? Hvað býr að baki? Þetta er mikilvæg heimild um það hvernig við höfum gefið kennileitum nöfn í kringum okkur hingað til, segir sitthvað um þjóðarsálina, segir sitthvað um breytta tíma þegar til að mynda götunöfn í Reykjavík tóku breytingum og ákveðið var að nefna sumar götur eftir konum sem var mikil nýlunda hér. Almennt nefnum við hins vegar ekki götur eftir fólki. Þó að fleiri karlar en konur hafi fengið götur nefndar í höfuðið á sér eru þær almennt ekki mikið nefndar eftir mönnum, ólíkt mörgum höfuðborgum á Norðurlöndum þar sem mjög margar götur heita í höfuðið á þekktum einstaklingum. Í okkar tilfelli er algengara að við sækjum nöfnin í náttúruna eða menningararfinn. Fræðimenn hafa tekist á um það og ég hætti mér ekki inn á þann vettvang. Við sjáum það oft þegar um er að ræða örnefni sem augljóst er hvaðan eru dregin. Gufudalur, Reykjadalur, Reykjavík, þarna er alveg augljóslega verið að vitna í jarðhitann í kringum okkur. Önnur örnefni hafa verið umdeildari og þar ber að nefna hina frægu náttúrunafnakenningu þar sem því var slegið fram að öll örnefni ættu á einhvern hátt rætur að rekja til náttúrunnar en síðar hefðu bókmenntirnar farið að hafa áhrif á það hvernig við túlkuðum örnefnin og við farið að telja að örnefnin ættu rætur að rekja til bókmenntanna og menningararfsins en ekki náttúrunnar. Eins og ég segi eru mörg örnefni sem hefðin segir okkur að komi frá menningararfinum. Af því að ég er Reykvíkingur og hef nefnt Reykjavík get ég nefnt Esju sem er auðvitað tröllkonan í Kjalnesingasögu.

Svo geta misskilin örnefni valdið almenningi gríðarlegu hugarangri. Ég man vel þegar ég var á ferð um Vestfirði með Vegahandbókina og beið spennt eftir að sjá bæinn Umsvalir. Ég var búin að búa til ýmsar kenningar af minni litlu orðsifjafræðilegu kunnáttu um hvað gæti búið að baki þessu bæjarnafni, Umsvölum. Ég sá í anda danskan bónda sem þarna hefði sest að en svo kemur fram á skiltinu að bærinn heitir Uppsalir en ekki Umsvalir og þar með féllu allar mínar kenningar dauðar til jarðar.

Sama á við um Feitsdal, ég var líka með á hreinu að þar hefði búið fremur óheppinn ábúandi. Það var næsti bær á eftir Umsvölum en þá hét hann Feigsdalur. Þetta var þyrnum stráð ferð en sýnir hvað örnefnin eru ríkur þáttur í menningarlandslaginu, hvað við ráðum venjulega í það og teljum okkur vita hvað búi að baki. Þegar eitthvað alveg óskiljanlegt birtist sem við skiljum ekkert í eru einfaldar skýringar eins og misritanir í Vegahandbókinni. Þetta sýnir hvað þetta litar allt umhverfi okkar þannig að ég fagna þessu sérstaklega og vona að þetta frumvarp verði samþykkt.

Að lokum vil ég nota tækifærið og segja að ég er samþykk þeirri breytingartillögu sem nefndin gerir að sinni og kom frá íslenskri málnefnd. Er það ekki rétt hjá mér? Hún gengur út á að örnefnanefnd komi einnig að því að úrskurða um nöfn og skilti um opinbera aðila. Það er nokkuð sem ég hef líka tekið eftir, alls ekki sem sérfræðingur heldur áhugamaður um íslenska örnefnahefð, að þar er oft ákveðið misræmi þannig að ég fagna því að nefndin geri þessa breytingu að sinni og vonast til þess að við náum að ljúka þessu frumvarpi á þessu þingi. Mér sýnist allt stefna í það. Ég held að lagaramminn og umhverfið um þennan málaflokk horfi til mikilla bóta ef við náum að horfa á þetta heildstætt, ekki bara í dreifbýli heldur líka þéttbýli.

Að öðru leyti hyggst ég ekki lengja þessa umræðu.