144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

örnefni.

403. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðuna og tek undir með honum um mikilvægi varðveislu örnefna. Þetta mál er sérstaklega mikilvægt en um leið margslungnara en virðist í fyrstu. Ég vil vekja sérstaka athygli á 11. gr. sem snýst um breytingu á öðrum lögum til að tryggja að markmið laganna náist. Þar er meðal annars kveðið á um að Landmælingar Íslands geri almenningi kleift að skrá örnefni í sérstakan gagnagrunn á vegum stofnunarinnar vegna þess að mikilvægt sé að tryggja þátttöku almennings við skráningu örnefna þannig að staðkunnugu fólki sé gert kleift með auðveldum hætti að setja örnefni út frá örnefnalýsingum á réttan stað. Jafnframt sé ekkert því til fyrirstöðu að getið sé um fleiri en eitt örnefni í slíkum gagnagrunni, sem er afskaplega mikilvægt.

Það kom fram við fyrri umfjöllun nefndarinnar á 143. þingi, síðastliðið vor, að sú vinna sem þarna er kveðið á um er hafin. Meðal annars má geta þess að eldra fólk í Reykjadal í Þingeyjarsýslu hefur myndað með sér hóp og skráir örnefni beint inn í gagnagrunninn með góðum árangri.

Mig langar að beina þeirri spurningu til þingmannsins hvort hann telji að þessi aðferð geti náð utan um skráninguna sem er vissulega mjög mikilvæg og tryggt varðveisluna til framtíðar. Ég veit að það er margt fleira þarna sem skiptir máli, það þarf t.d. huga að því að ná utan um eldri skráningar sem eru til á pappír. Ég átta mig ekki alveg á þeim annmarka sem hv. þingmaður sér á skilgreiningu hugtaksins „örnefni“, en það er getið um svæði í skilgreiningunni. Ég þarf aðeins betri umfjöllun til að átta mig á því.