144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

örnefni.

403. mál
[14:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa að frumvarpið er framför frá gömlu lögunum um bæjanöfn og þetta er hið ágætasta starf í sjálfu sér sem hefur verið unnið. Það sem ég saknaði kannski var tengingin við ástandið eins og það er og hefur verið og hvernig menn ætla að passa upp á þann arf sem til staðar er í skrám sem kannski hefur of lítið verið unnið úr eða unnið með.

Varðandi það hvernig við getum haldið þessari hefð við og haft þennan menningararf lifandi og tryggt að hann berist áfram þá hef ég nokkrar áhyggjur af því að dálítið sé að draga úr þeirri menningarlegu hefð okkar að láta hlutina heita eitthvað, því eins og skáldið sagði: Landslag yrði lítils virði ef það héti ekki neitt. Ég er kannski ekki endilega sammála því en það gefur því gildi líka og gott að geta vísað til nafngiftanna.

Það er svo alveg hárrétt að það er gott að geta skráð inn fleiri en eina nafngift vegna þess að menn nota í talsverðum mæli algerlega mismunandi nöfn yfir sama fyrirbærið eða þá að ekki er útkljáð nákvæmlega hver sé hin réttasta nafngift, sögulega séð. Það er nokkuð sem maður rekur sig rækilega á þegar á að gera eitthvað af þessu tagi, að færa nöfn inn á hringsjá, að nokkrar nafngiftir eru þekktar og erfitt að ákveða hvað er rétt. Oft er þá notuð sú aðferð að velja þann kostinn sem elstur finnst á prenti. Það er ein af þumalputtareglunum. Þegar þurfti til dæmis að ákveða það á þessari frægu útsýnisskífu sem ég hef gert hvort Læknisstaðir eða Læknesstaðir væri hin rétta nafngift þá réð það sem eldra fannst á prenti.