144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta mál og vinnslu þess í nefndinni. Nú er það svo að ég sit í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Við fengum afar takmarkaðan tíma til þess að veita umsögn um málið. Stór hluti þess varðar auðvitað umhverfismál og skipulagsmál sveitarfélaga sem heyra undir umhverfis- og samgöngunefnd, en hv. atvinnuveganefnd lá svo mikið á að afgreiða málið frá nefndinni að hún gerði það áður en umsögn umhverfisnefndar barst nefndinni. Mig langar því til að spyrja hv. þingmann: Hvað liggur svo mikið á í þessu máli? Af hverju er öðrum fastanefndum þingsins ekki sýnd sú lágmarkskurteisi að bíða eftir að umsögn berist frá nefndinni? Þetta er kannski það fyrsta sem varðar vinnulagið.

Svo langar mig til að spyrja hv. þingmann út í hugmyndir sem fram komu í umsögnum, t.d. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, um svokallaða sáttanefnd. Af hverju er ekkert gert með það í vinnu nefndarinnar?