144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað liggur á? spyr hv. þingmaður. Þannig er að málið var unnið með mjög líkum hætti og vandi er í nefndinni. Yfirleitt eru gefnar um tvær vikur til umsagnar og ég held að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafi fengið nákvæmlega þann tíma eins og aðrir umsagnaraðilar. Ef ég man hlutina rétt barst umsögn hv. umhverfis- og samgöngunefndar þó nokkru eftir að umsagnarfrestur var liðinn en um umsögnina var engu að síður fjallað.

Hvað liggur á? spyr hv. þingmaður. Fyrir atvinnuveganefnd liggja mörg mjög stór mál og einfaldlega sagt hefur það vinnulag verið í nefndinni að reyna að afgreiða mál hratt og örugglega, en það hefur ekki komið niður á því að fjöldi aðila komi fyrir nefndina. Fjöldi aðila lagði fram umsagnir sem yfir var farið.

Hvað varðar sáttanefndina þá var nú ekki meirihlutavilji að setja hana inn þarna, en engu að síður teljum við að með því að kerfisáætlunin er lögð fram mjög snemma í ferlinu geti allir aðilar, allir haghafar, hagsmunaaðilar, komið athugasemdum sínum á framfæri í tíma þó nokkru áður en eiginlegar framkvæmdir hefjast. Ég tel þetta því ekki vera til vansa fyrir málið.