144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Eins og við vitum sem erum í atvinnuveganefnd hefur mikil gagnrýni verið á þetta mál af hálfu ýmissa aðila, Skipulagsstofnunar, Landverndar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, svo að eitthvað sé nefnt. Skipulagsstofnun hefur í sinni gagnrýni vísað til ákvæða í raforkulögum um kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og úrskurðarnefndar raforkumála. Hvert telur hv. þingmaður að hægt sé að kæra niðurstöðu Orkustofnunar og er hún kæranleg yfir höfuð?

Mig langar líka að heyra hjá hv. þingmanni varðandi aðkomu hagsmunaaðila að þessu ákvörðunarferli. Nú þekkjum við verklagið varðandi samgönguáætlun og rammaáætlun, sem eru afgreiddar með þingsályktun. Hver er aðkoma hagsmunaaðila að þessu máli eins og það lítur út núna?

Ég spyr einnig: Telur hv. þingmaður að ríkið væri skaðabótaskylt gagnvart sveitarfélögum ef menn gengju þvert á skipulag sveitarfélaga varðandi ákvarðanir í framkvæmdum kerfisáætlunar, framkvæmdaáætlun þeirra, þar sem sveitarfélögin eru þá skikkuð til að taka hana upp í sínu skipulagi innan fjögurra ára?