144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins mun ekki þurfa leyfi Orkustofnunar fyrir nýju flutningsvirki ef gert er ráð fyrir því í framkvæmdaáætlun kerfisáætlana. Telur hv. þingmaður enga annmarka á því að ekki þurfi leyfi Orkustofnunar fyrir nýju flutningsvirki?

Aðeins varðandi 9. gr. Vakin hefur verið athygli á því af ýmsum aðilum, eins og í umsögn Akureyrarbæjar, að ekki sé minnst á að tekið verði tillit til umhverfismála, ferðamála, byggðamála eða skipulagsmála við framkvæmd kerfisáætlunar. Telur hv. þingmaður ekki óeðlilegt að svo sé ekki?

Það hefur líka verið gagnrýnt að rammaáætlun sé notuð sem grunnforsenda kerfisáætlunar. Er eðlilegt að rammaáætlun sé nýtt þar en ekki til dæmis raforkuspá? Það hefur líka komið fram í gagnrýni umhverfis- og samgöngunefndar að frumvarpið gangi í öfuga átt við löggjöf og þróun undanfarinna ára að því leyti að samráð við almenning og hagsmunaaðila hefur verið aukið við gerð viðamikilla opinberra áætlana og málum beint í sáttafarveg fremur en að um einhliða ákvarðanatöku sé að ræða líkt og þetta frumvarp virðist byggjast á að mestu leyti. Ég vildi heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart þessu.