144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst gæta eilítils misskilnings í andsvari hv. þingmanns. Í 9. gr. segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ákveða skal legu flutningslína í skipulagi að fenginni tillögu flutningsfyrirtækisins í samræmi við kerfisáætlun, að höfðu samráði þess og skipulagsyfirvalda.“

Það segir líka, af því að hv. þingmaður ræddi um að ónógt eða minna samráð væri haft en verið hefði, fyrr í 9. gr. a-lið, með leyfi forseta:

„Flutningsfyrirtækið skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og þau sveitarfélög sem kunna að þurfa að gera breytingar á skipulagsáætlunum sínum vegna kerfisáætlunar.“

Og hér segir, með leyfi forseta:

„Drög að kerfisáætlun skulu kynnt og send þessum aðilum til sérstakrar umfjöllunar og ber þeim að skila athugasemdum innan sex vikna frá kynningu. Flutningsfyrirtækið skal einnig hafa samráð við alla aðra hagsmunaaðila og skal nánar kveðið á um samráðsferlið í reglugerð.“

Ég held því að áhyggjur af ónógu samráði séu óþarfar í ljósi þess sem fram kemur í þessari lagagrein.