144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það vekur athygli mína að framsögumaður meiri hluta er ekki hér í salnum við umræðuna, þaðan af síður ráðherra málaflokksins sem hefði verið full ástæða til. Reyndar þyrftu hér að vera a.m.k. tveir og helst þrír hæstv. ráðherrar; fyrir utan iðnaðarráðherra ætti hér auðvitað að vera umhverfis- og skipulagsmálaráðherra og innanríkisráðherra fyrir hönd sveitarfélaga. Hér erum við að fjalla um gríðarlega stórt mál og margvísleg prinsippmál, grundvallarmál sem þarf að taka alvarlega og takast á við. Ég tel að þessir ráðherrar ættu að koma hér þannig að við gætum fengið að heyra sjónarmið þeirra og lagt spurningar fyrir þá, t.d. hæstv. umhverfis- og skipulagsráðherra á grundvelli athugasemda Skipulagsstofnunar, t.d. hæstv. innanríkisráðherra á grundvelli athugasemda og afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga og þar fram eftir götunum. Kannski er minnst þörf á því að hafa hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hér því við förum nokkuð nærri um hvar hjarta þess ráðherra slær í þessum efnum. Frumvarpið ber það með sér.

Ég held að það sé algerlega ljóst og það varð manni í raun strax ljóst þegar maður las nefndarálitin, meirihluta- og minnihlutaálitin sem komu frá atvinnuveganefnd og að sjálfsögðu umsagnir meiri hluta og minni hluta umhverfis- og skipulagsnefndar, að þetta mál er engan veginn fullunnið, það vantar mjög mikið upp á, enda hefur nú verið upplýst að atvinnuveganefnd lá svo mikið á að hún tók málið út áður en hún fékk álitin frá umhverfis- og skipulagsnefnd. Það geta náttúrlega ekki talist góð vinnubrögð, sérstaklega vegna þess, eins og hv. þm. Róbert Marshall benti réttilega á, að umhverfis- og skipulagsnefnd er ekki bara hver önnur nefnd í þessu máli. Þetta mál er að uppistöðu til skipulagsmál og hefði þess vegna alveg eins átt að fara í þá nefnd.

Hv. atvinnuveganefnd mætti gjarnan vera betur „representeruð“ hér í salnum, ég hefði gjarnan viljað hafa hér formann eða varaformann nefndarinnar, með fullri virðingu að sjálfsögðu fyrir hv. þm. Kristjáni L. Möller sem situr hér með okkur (Gripið fram í.) og reyndar Björt Ólafsdóttir líka, mjög gott, og hér var auðvitað framsögumaður minni hlutans úr nefndinni. Það væri æskilegt að fá við því svör áður en mikið lengra er haldið í umræðunni: Er nefndin tilbúin til að taka málið til sín aftur? Ég held að það sé augljóslega vænlegasti kosturinn í stöðunni ella er óhjákvæmilegt að leggja til frávísun þess eins og reyndar er gert í nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar, ekki vegna þess að menn langi til þess, en það er bara ekki tækt að afgreiða málið svona. Ég held að mönnum hljóti að verða það ljóst ef þeir fara yfir þetta í huga sínum. Ég kem betur að því síðar.

Varðandi það sem segir um hryggjarstykkið í frumvarpinu, þ.e. kerfisáætlunina sjálfa og hennar stöðu, vekur margt þar mikla athygli, satt best að segja. Ef við fjöllum fyrst um kerfisáætlunina sem slíka, samanber a-lið 2. gr., sem verður 9. gr. a, er þar fjallað um að hún skuli lögð fram fyrir Orkustofnun árlega, skiptast í langtímaáætlunarhluta og framkvæmdaáætlunarhluta byggða á raunhæfum sviðsmyndum um þróun raforkuframleiðslu. Það hefur verið aðeins rætt hér. Er lagt upp með að þetta séu raunhæfar sviðsmyndir? Er það gert t.d. með því að vísa ekki bara til nýtingarflokksins í heild sinni í rammaáætlun eins og hann stendur heldur líka biðflokksins eins og það sé sjálfgefið að hann verði allur virkjaður? Hvaðan kemur mönnum það að umgangast vinnuna í rammaáætlun og flokkunina þar með þeim hætti? Það er auðvitað ögrandi. Það er beinlínis ögrandi að setja þetta þannig upp að Landsnet eða flutningsfyrirtækið eigi að leggja til grundvallar að allt í biðflokki rammaáætlunar verði virkjað og þess vegna þurfi að huga fyrir raflínum sem geti flutt það. Þetta stenst ekki. Það er bara einfaldlega þannig. Þegar af þeirri ástæðu, ef þetta er nálgunin, er ekki innstæða fyrir orðalaginu um að raunhæfar sviðsmyndir verði teknar upp.

Í frumvarpinu er mikið talað um flutningsfyrirtækið og ég man að hæstv. ráðherra talaði mikið um samráð við 1. umr., menn þyrftu sko ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að það væri svo mikið samráð innbyggt í ferlið. Já, í 2. gr. frumvarpsins er talað um að flutningsfyrirtækið skuli hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og þau sveitarfélög sem kunna að þurfa gera breytingar á skipulagsáætlunum sínum vegna kerfisáætlunar. Drög að kerfisáætlun skulu kynnt og send þessum aðilum til sérstakrar umfjöllunar og ber þeim að skila athugasemdum innan sex vikna frá kynningu. Flutningsfyrirtækið skal einnig hafa samráð við alla aðra hagsmunaaðila og skal nánar kveðið á um samráðsferlið í reglugerð. Er þetta sá umbúnaður í lögum um t.d. aðkomu almennings að mikilvægum ákvörðunum á sviði umhverfismála sem Árósasamningurinn gerir ráð fyrir? Nei, þetta er ekki hann. Það er algerlega á hreinu vegna þess að hér er þetta lagt í vald eftir atvikum flutningsfyrirtækisins, hagsmunaaðilans, og að einhverju leyti getur ráðherra svo nánar útfært þetta í reglugerð. Af hverju er ekki sýnt á þessi spil? Af hverju er ekki gengið frá þessu með sambærilegum hætti í lagatextanum og er í lögum um rammaáætlun þar sem er algerlega skýr réttur aðila í vönduðu ferli sem gefur rúman tíma til þess að koma rökstuddum sjónarmiðum á framfæri? Það er ekki gert hér. Hér stytta menn sér hrottalega leið og ég efast um að þetta standist lögfestingu Árósasamningsins.

Þegar kemur að eftirlitinu þá hefur þegar verið á það bent að Orkustofnun er falið eftirlitið. Hún á í fyrsta lagi að vera aðalaðilinn á móti flutningsfyrirtækinu eða Landsneti að samþykkja kerfisáætlunina og svo hefur hún eftirlit með því sem hún er búin að samþykkja. Það fullnægir væntanlega ekki þeim reglum sem eru sumpart þegar komnar, að öðru leyti á leiðinni í þessum efnum, að einhver óháður aðili fylgist með því að rétt sé með fari. Orkustofnun og Landsnet eða flutningsfyrirtækið fá völdin í þessu máli. Samráð þýðir ekki það sama og samkomulag. Samráð þýðir ekki það sama og að menn komist að sameiginlegri niðurstöðu þegar svona er um það búið í lagatexta. Ég les út úr frumvarpinu að það eru flutningsfyrirtækið og Orkustofnun sem ráða. Það er enginn farvegur fyrir ágreining eða hvernig hann verður almennilega útkljáður. Það er enginn óháður gerðardómur eða úrskurðaraðili til að takast á við annaðhvort kerfisáætlunina í heild eða afmarkaða þætti hennar sem ágreiningur rís um, sem væri auðvitað hið rétta í þessum efnum. Kerfisáætlunin getur að uppistöðu til verið þannig að menn sætti sig við hana, en ef harður ágreiningur rís um einstaka þætti hennar eða framkvæmdaáætlunarhluta hennar til næstu þriggja ára, hver er þá staðan í þeim efnum?

Svakalegast er þetta þó þegar kemur að c-lið 2. gr., um stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagi sveitarfélaga. Ég varð satt best að segja alveg gáttaður þegar ég las þetta og það kom auðvitað á daginn eins og hér hefur rækilega verið farið yfir að sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra eru orðin mjög óróleg yfir því ef á að keyra þetta fram með þessum hætti, enda er orðalagið mjög sérstakt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnum ber við næstu endurskoðun aðalskipulags, og eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri tíu ára kerfisáætlun. Sveitarstjórnum ber enn fremur að tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Ákveða skal legu flutningslína í skipulagi að fenginni tillögu flutningsfyrirtækisins í samræmi við kerfisáætlun …“

Bara „ákveða skal“. Kerfisáætlun ræður. Landsnet ræður, að vísu í samráði þess og skipulagsyfirvalda. Svo kemur náttúrlega besta setningin, sem meiri hlutinn leggur að vísu til núna að hverfi út úr frumvarpinu en er eiginlega sumpart eftirsjá að því hún er svo dásamlega lýsandi fyrir andrúmsloftið í frumvarpinu. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn er óheimilt að víkja frá tillögu flutningsfyrirtækisins ef það leiðir til þess að flutningsfyrirtækið nær ekki að uppfylla skyldur sínar samkvæmt gildandi kerfisáætlun hverju sinni.“

Ég sé að meiri hlutinn leggur til að ákvæðið hverfi á brott enda er það auðvitað óþarft því það er búið að ákveða þetta í fyrri málsgrein, það er búið að færa flutningsfyrirtækinu og Orkustofnun allt vald í fyrri málsgrein. Það þarf svo sem ekki að taka fram aftur að sveitarfélögin geti ekki móast við. En höfundar frumvarpsins voru þannig þenkjandi að þeir settu þessa setningu samt inn og það er mjög lýsandi. Það átti að hamra sérstaklega á því að sveitarfélögunum væri algerlega óheimilt að vera eitthvað að móast við. Það skyldi vera kerfisáætlunin, unnin af flutningsfyrirtækinu, samþykkt af Orkustofnun, sem réði.

Talandi um Orkustofnun þá verður að segja þá hluti eins og er að því miður held ég að hún ráði ekki alveg við það margþætta hlutverk sem hún á að hafa með höndum. Ég tel að Orkustofnun sé í miklum vanda stödd með það samsetta og sumpart gagnstæða hlutverk sem henni er falið sem leyfisveitandi, sem undirbúningsaðili að tillögugerð fyrir rammaáætlun, sem eftirlitsaðili og sem stjórnvald sem setur orkufyrirtækjunum tekjumörk og hvað það nú er. Þau eru orðin ansi samsett, verkefni Orkustofnunar. Hún birtist manni meira og minna eins og framlengdur armur orkufyrirtækjanna og það leynir sér náttúrlega ekki hvers tillögur hennar í vinnu rammaáætlunar bera vitni. Þær bera þess vitni að Orkustofnun lítur það sem hlutverk sitt að reyna að tryggja að það sé opin skoðun í gangi á því að allt sé virkjað sem virkjanlegt er í landinu. Hún dregur upp úr pússi sínu ævagamlar tillögur um virkjunarkosti sem allir héldu að menn væru gjörsamlega hættir að hugsa um, rekur sig að vísu svo á að sumir þeirra eru innan þjóðgarða eins og Jökulsá á Fjöllum og er barin til baka með það, en engu að síður er þetta sú Orkustofnun sem birtist okkur núna.

Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að hún gerir mann ekki rólegri í umfjöllun um þessi mál, sú tilfinning sem maður fær gagnvart því að náttúruvernd og umhverfismál séu alls staðar sett út á jaðarinn. Það er svo sannarlega þannig hér, þeim er ekki gert hátt undir höfði í þessu frumvarpi.

Ég tel líka að menn séu að stytta sér mjög leið með því að ýta í raun og veru mörgum af vandasömu útfærsluatriðunum út af borðinu í frumvarpinu og færa það yfir í reglugerðarheimild ráðherra. Það er meira en smámál að ráðherra skuli svo í reglugerð kveða nánar á um kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins, upplýsingar sem skulu vera hluti af kerfisáætlun eða fylgja með henni og hvernig skuli staðið að samráðsferlinu. Ráðherrann á bara að ráða því að svo miklu leyti sem það stendur ekki í lögum að menn eigi að tala við þessa eða hina. Mér finnst það vera ómögulegur frágangur í svona afdrifaríku og miklu máli. Það skiptir sköpum hver er staða sveitarfélaga, hver er staða umhverfisverndarsamtaka, hver er staða almennings, hver er staða landeigenda, hver er staða skipulagsyfirvalda gagnvart því ferli sem á sér stað í aðdraganda þess að kerfisáætlun komi á koppinn.

Það blæs ekki vænlega, herra forseti, þegar svo er í byrjun málsins að þessir aðilar eiginlega allir saman senda inn mjög alvarlegar athugasemdir og gagnrýni. Það gera sveitarfélögin, það gerir Skipulagsstofnun, það gera landeigendur, það gerir Landvernd og fleiri aðilar. Það gerir umhverfis- og skipulagsnefnd Alþingis, bæði meiri hluti og minni hluti sem eru í aðalatriðum sammála um að frumvarpið sé á engan hátt nógu skýrt og tilbúið til afgreiðslu, það sé gallað, það gangi of langt, það þjarmi allt of mikið að skipulagsvaldi sveitarfélaganna, það sé líka óljóst hvaða stöðu samþykkt Orkustofnunar á kerfisáætlunum hefur. Er það stjórnvaldsákvörðun og kæranleg sem slík? Eða er það bara einhver stóridómur Landsnets og Orkustofnunar saman? Já, það virðist vera. Þeim er meira og minna falið alræðisvald eins og ég les út úr þessu. Það er auðvitað engan veginn tækt.

Um þetta er ágætlega fjallað í vönduðum álitum bæði meiri hluta og minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Þau eru ítarleg. Þau eru vel rökstudd, sem er eiginlega meira en hægt er að segja með fullri virðingu um álit meiri hluta atvinnuveganefndar. Það veldur mér vonbrigðum hversu rýr sú vinna er og hversu lítið þess sér stað að málið hafi verið skoðað á dýptina í þeirri vinnu. Mest hissa varð ég þó þegar ég sá breytingartillögurnar. Það hvarflaði ekki að mér eftir 1. umr. málsins og eftir þær umsagnir sem fór að rigna inn og gestakomur — það skal tekið fram, frú forseti, að sem varamaður í atvinnuveganefnd sat ég tvo fundi þar sem málið var til umfjöllunar, ágætisfundi þar sem gestir komu með miklar athugasemdir — og fyrr átti ég á dauða mínum von en því að nefndin lyki svo bara störfum og afraksturinn yrði þetta tiltölulega nauma álit og þrjár breytingartillögur sem allar eru í raun og veru inntakslausar, eru ekki neitt. Í þeirri fyrstu er skipt út orðinu „skipulagsmál“ fyrir „skipulagsákvarðanir“ og í annarri er felldur brott lokamálsliður 1. mgr. 2. gr. brott, sem í sjálfu sér hafði ekki merkingu vegna þess að búið var að ákveða það sama í fyrri málsgreinum, að kerfisáætlunin réði. Þetta átti bara að vera einhver viðbótarhamar í hausinn á sveitarfélögum að þeim væri óheimilt að móast við. Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að þess þyrfti ekki, sveitarfélögin væru búin að fá fallhamarinn í hausinn, það þyrfti ekki að segja það tvisvar. Og hver er þriðja breytingin? Hún er að í staðinn fyrir að 1. janúar 2015 öðlist lög þessi gildi geri þau það þegar í stað, því 1. janúar 2015 er liðinn og þar af leiðandi gat frumvarpið ekki staðið þannig. Þetta er allt og sumt.

Það vekur mér satt best að segja mikla undrun að menn skyldu ekki reyna að leggja meira á sig til þess að ná aðeins betur utan um málið af því það er svo augljóst að miklu, miklu meiri vinnu þarf til ef á að vera einhver von til þess að málið nái markmiðum sínum. Um hvað, frú forseti? Um hvað átti þetta mál að snúast? Jú, það var nefnilega um mjög mikilvægan hlut. Þess vegna er dapurlegt að standa í þeim sporum að málið sé svona vanreifað. Þetta átti að vera rammi um og leikreglur um það hvernig við nálgumst niðurstöður og tökum upplýstar ákvarðanir um þessi vandasömu mál og reyna að skapa sátt um að ferlið að þeim punkti yrði vandað og allra sjónarmiða gætt. Það hefur mistekist hér. Það er ekki þannig.

Þetta átti með öðrum orðum að vera rammi, verklag, utan um það að reyna að laða fram meiri sátt um mjög vandasamar og afdrifaríkar ákvarðanir eins og hvar er farið um með stórar háspennulínur, hvar eru línur lagðar í jörð o.s.frv. Nálgunin er mjög hliðstæð þeirri hugsun sem er á bak við rammaáætlun. Það vita auðvitað allir að þar með er ekki trygging fengin fyrir því að allir verði sammála eða sáttir, en það skiptir alltaf gríðarlega miklu máli að menn nái saman um leikreglurnar, menn deili ekki um þær, menn deili ekki um leikreglurnar og ferlið. Menn keppa í íþróttum eða hverju öðru sem það nú er og þá skiptir mjög miklu máli að samkomulag sé um leikreglurnar, hvað megi og hvað megi ekki, hvað teljist brot á þeim og hvað ekki. Ef menn þurfa á hjálp að halda og ef ekki tekst öllum að fara eftir reglunum þá er yfirleitt hafður dómari í slíkum málum. Það er ekki hér.

Ég tel að þetta mál sé andvana fætt sem einhver þróun í þá átt að auka líkurnar á meiri samstöðu um þessi mál. Mér finnst það mjög dapurlegt. Ég batt vonir við það á sínum tíma þegar nefnd skilaði áliti sínu og komst að ágætum niðurstöðum svo langt sem þær náðu. Þær ábendingar og þær áherslur sem sú nefnd kom með voru til bóta og ég batt vonir við að í framhaldinu mundi málið þroskast vel þannig að við næðum að setja niður sameiginlegar leikreglur og til meiri friðar mundi horfa um þessi mál. Það mun ekki takast með þessu. Ef menn lögfestu þetta svona óbreytt er það ávísun á að aðilar verði ósáttir og það munar um minna en það að sveitarfélögin séu ósátt, að Skipulagsstofnun sé ósátt, að Landvernd sé ósátt, að landeigendur séu ósáttir og meira að segja að önnur nefnd í þinginu er algjörlega ósátt við það hvernig málið kemur hér á dagskrá. Nægir að vitna í það sem sagt er í áliti til dæmis meiri hluta umhverfis- og skipulagsnefndar (Forseti hringir.) sem tekur býsna djúpt í árinni. (Forseti hringir.) Ekki eru það stjórnarandstæðingar.

Frú forseti. Því miður er ekkert annað að gera en (Forseti hringir.) annaðhvort að nefndin kalli málið til sín aftur eða þá að vísa því til ríkisstjórnarinnar.