144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir þetta. Það eru gagnlegar upplýsingar og ágætt að vita af því að málið fari til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Kannski var það svolítið sjálfgefið af því málið er í ágreiningi og umdeilt. En ég tel að það væri miklum mun betra að nefndin kallaði það til sín núna, við gerðum bara hlé á umræðunni og nefndin tæki góðan snúning á málinu, t.d. líka að atvinnuveganefnd og umhverfis- og skipulagsnefnd héldu sameiginlega fundi og færu vel yfir þetta, því það er augljóst að umhverfis- og skipulagsnefnd hefur lagt talsverða vinnu í sitt álit. Það er betra og þingræðislegra að gera það þannig. Þá þarf ekki að koma til atkvæða frávísunartillaga sem okkur er nauðugur einn kostur að flytja ef við skynjum ekki vilja til þess að mætast einhvers staðar í málinu.

Það er að mínu mati líka ljóst að niðurstaðan af slíkri skoðun er líkleg til að skila umtalsverðum breytingum á frumvarpinu. Ég tel að það sé alveg hægt og vil taka sérstaklega fram að ég tel að það sé bara spurning um vinnu, hægt sé að betrumbæta frumvarpið verulega. Ég er afar áhugasamur um að það sé gert vegna þess að það er hárrétt sem sagt er að þetta er mikilvægt. Mikið er búið að leggja í þetta á umliðnum árum og við eigum hlutdeild í því sum hver að reyna að koma þessum málum í betri farveg. Þess vegna er ég tilbúinn til að leggja mitt af mörkum og aðilar í kringum mig að reyna að ná betur saman um þetta mál, en það gerum við ekki með þessu. Það er óhjákvæmilegt að það strekki dálítið í því ef maður skynjar ekki vilja til þess að mætast betur í þessu máli og taka betur mið af þeim sjónarmiðum sem vel rökstudd hafa komið fram frá sveitarfélögunum, já, réttilega. Það munar nú um minna en að hafa sveitarfélögin með sér. Það er eiginlega varla hægt að afgreiða málið í grenjandi ágreiningi við sveitarfélögin vegna þess að þarna er undir einn helgasti (Forseti hringir.) réttur sveitarfélaganna sem er skipulagsvaldið.