144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:35]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Já, ég tek undir með þingmanninum og fagna þeirri hugmynd að umhverfis- og skipulagsnefnd og atvinnuveganefnd fundi saman um málið. Það er ástæðulaust að vera að kalla sömu aðila inn á fundi beggja nefndanna, það væri algjört rugl. Svo er það alltaf þannig að ef fólk talar saman er líklegra að það fáist einhver niðurstaða og betri niðurstaða en ef ekki. Það er góð hugmynd og ég fagna henni.

Annað er að ef aðili eins og Samband íslenskra sveitarfélaga skilur ekki, þrátt fyrir alla sína lögfræðinga og miklu vitneskju, atriði í frumvarpinu eða hvernig það eigi fram að ganga, þá erum við svolítið illa sett. Auðvitað verðum við að hlusta á það. Þá höfum við ekki unnið vinnuna nógu vel. Það þýðir ekki að henda þessu í fólk og segja: Þið finnið bara út úr þessu. Það mun ekki enda vel og er ekki, vænti ég, áhugi fyrir því hjá meiri hluta nefndarinnar að skilja við málið þannig.