144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ánægður að heyra að eftirspurn væri eftir því að ég væri hér. Ég fylgdist með þessari umræðu annars staðar í húsinu, en að sjálfsögðu er mér ljúft að vera hér.

Það eru nokkur atriði í annars ágætri ræðu hv. þingmanns sem mér finnst ekki alveg eiga við rök að styðjast. Fyrst af öllu ætla ég að taka það fram að ég tek ekki undir vantraust þingmannsins á þeirri ágætu stofnun Orkustofnun, ég deili ekki því vantrausti.

Að öðru leyti vil ég benda á að hér segir:

„Meiri hlutinn bendir á að samþykkt eða synjun kerfisáætlunar af hálfu Orkustofnunar er kæranleg stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar raforkumála á grundvelli 1. mgr. 30. gr. raforkulaga. Úrskurðarnefndin er sjálfstæð í sínum störfum […] er unnt að kæra samþykkta kerfisáætlun í heild eða einstaka hluta hennar, t.d. einstaka fyrirhugaða framkvæmd innan hennar og afmarkaða þætti. Jafnframt er ýmist unnt að kæra ákvörðun Orkustofnunar um að samþykkja eða synja samþykki kerfisáætlunar að efni til eða formi.“

Hvað vantar upp á þetta, hv. þingmaður?

Síðan kemur annað. Við búum við það núna að hringtenging landsins er eins og jólasería. Það þarf ekki nema eina þakplötu til að taka út alþjóðaflugvöllinn. Auðvitað þurfa menn að gyrða sig í brók og koma á almennilegri tengingu milli landshluta og frá helstu virkjunum sem hér eru.

Ég spyr þingmanninn: Hversu langan tíma telur hann að við höfum? Það kemur í ljós að við eigum ekki einu sinni 10 megavött aflögu á Dalvík fyrir 120 manna fyrirtæki. Við eigum ekki aflögu orku á Siglufirði fyrir gagnaver. Við eigum ekki aflögu orku á Vestfjörðum í kísilverksmiðju. Hversu lengi eigum við að bíða með að setja hér á alvöruuppbyggingu raflínuvæðingar um landið?