144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég bjóst nú við þessari ræðu frá einhverjum hv. þingmanni, að nú kæmi ramakveinið um það annars vegar að öll orka sé búin í landinu og hins vegar að það standi okkur svo agalega fyrir þrifum að þessi kerfisáætlun sé ekki komin, að það sé ekki hægt að koma rafmagni til Dalvíkur, Siglufjarðar og Vestfjarða — hv. þingmaður nefndi að vísu ekki norðausturhornið þar sem ástandið er kannski alvarlegast, á norðausturlínunni frá Laxárvirkjun og alla leið til Bakkafjarðar, sem er fulllestuð og rúmlega það og stendur mönnum fyrir þrifum.

En það ástand hefur bara bókstaflega ekki neitt með þetta að gera. Ekki neitt. (Gripið fram í: Heyr.) Það vantar peninga og það vantar uppbyggingu. Það er ekki ágreiningur um línustæði á norðausturleiðinni. Það er ekki ágreiningur um að jarðstrengurinn liggi frá Kópaskeri og Brúarlandi í Þistilfirði. Jarðstrengurinn er hins vegar fulllestaður. Hann flytur ekki meira. Það hefur ekkert með kerfisáætlun að gera. Það er algjört skálkaskjól að fara að nota ástandið í dreifikerfinu út á Vestfirði, út á Tröllaskaga eða út á norðausturhornið í þessu samhengi. Það er enginn ágreiningur um það. Það eru þar línur og línustæðin eru ekki umdeild, að því er ég best veit. Það eina sem vantar er að styrkja þær línur og leggja sverari jarðstrengi o.s.frv. Þannig er nú það.

Í öðru lagi mótmæli ég því að ég hafi lýst einhverju almennu vantrausti á Orkustofnun. Það geri ég ekki, frú forseti, svo að það fari bara inn í þingtíðindin. Orkustofnun er að sjálfsögðu hin mætasta stofnun og mjög mikilvæg. En ég leyfði mér að fara yfir það að Orkustofnun hefur mjög samþætt og margþætt og sumpart mótsagnakennt hlutverk. Ég held við höfum að sumu leyti grautað of mörgu þangað inn og hún er að mínu mati ekki í nógu þægilegri stöðu varðandi ýmislegt sem henni er ætlað að gera þegar horft er til hlutverks hennar í sambandi við að meta orkuþörfina, vísa tillögum inn í rammaáætlun, hafa eftirlit með orkufyrirtækjunum, setja þeim tekjumörk o.s.frv. og eiga svo líka að vera þessi miðlægi þáttur hér í kerfisáætlunaruppbyggingunni sjálfri og hafa eftirlit með henni. (Forseti hringir.)

Vissulega viðurkenni ég að ég hafði um það þau orð að mér finnst að Orkustofnun (Forseti hringir.) og stefna hennar gefi ekki tilefni til að vera bjartsýnn (Forseti hringir.) á að hún sé nógu hlutlæg í öllum tilvikum í störfum sínum.