144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er orðinn allt of gamall til þess að hrökkva undan einhverjum nauðhyggjuröksemdum um að nú sé allur tíminn farinn, lestin sé að fara frá sporinu og það sé bara fár og voði fyrir dyrum nema við köstum til höndunum og sullum einhverju svona löguðu í gegn. Það verður ekki til velfarnaðar. Ef það mistekst núna að leggja grunn að ákvarðanatöku um þessi viðkvæmu og vandasömu mál í meiri sátt en í boði hefur verið þá er það ekki til þess að flýta framþróun í þessum málum, það gæti þvert á móti tafið fyrir.

Það er auðvitað að mörgu að hyggja í því. Það er alveg rétt að það þarf að styrkja flutningskerfið á ákveðnum svæðum. En hve mikið? Hver á að ráða forsendunum? Á sú styrking að taka mið af því að á næstu árum verði allt virkjað sem er í nýtingar- og biðflokki í rammaáætlun? Er ekki hættan sú að menn spenni upp áætlaða þörf og heimti línur, 130 eða 220 kílóvött þar sem kannski 66 kílóvött mundu duga, og enginn minnsti ágreiningur er um eða vandamál samfara því, það kerfi fer væntanlega fyrst og fremst í jörð á næstu árum, miklu meira en fullnægjandi fyrir flest þau svæði sem hér hafa verið nefnd til sögunnar. En ef menn eru með gríðarlega stóriðjudrauma í farteskinu og sjá fyrir sér að helst þurfi 220 ef ekki 400 kílóvatta línu þvers og kruss um landið þá versnar í því. Þannig að forsendurnar hér skipta líka miklu máli. Hvað gefum við okkur í þeim efnum? (Gripið fram í.)

Ég endurtek bara að vandamálin sem hafa verið erfiðust við að eiga, t.d. allir Vestfirðirnir — þó að þar hafi vissulega aðeins verið unnið í úrbótum, þökk sé nefnd sem fór af stað 2009 og hefur unnið að raforkumálum á Vestfjörðum — og síðan norðausturhornið og einstaka svæði á miðju Norðurlandi, að það hefur ekkert með þessi stóru áform að gera í sjálfu sér, það er hægt að leysa úr því. En ég tel að þetta hafi meðal annars frestast vegna þess að Landsnet hefur haft hugmyndir um svo gríðarlega mikla (Forseti hringir.) flutningsgetu í kerfinu og er að reyna að ná því í gegn og án þess að geta (Forseti hringir.) alltaf útskýrt eða rökstutt að þess sé þörf.