144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má efast um það. Maður staldrar við þegar jafnöflugur aðili á þessu sviði og Skipulagsstofnun telur þetta óljóst, telur þetta álitamál. Jú, meiri hlutinn hefur valið að setja þetta inn í sitt nefndarálit og við getum fallist á að það sé út af fyrir sig ákveðin lögskýring. En það er bara álit meiri hlutans, það hefur í sjálfu sér ekki annað vægi. Hvað gerist ef einhverjir (Gripið fram í.) — þetta er ekki í þessu frumvarpi um kerfisáætlun. Það er engin sjálfstæð kæruheimild í þessum ákvæðum laganna eða frumvarpsins sem eiga að verða að lögum um kerfisáætlun sem slíka og það bendir Skipulagsstofnun á. Ef menn vilja vera vissir í sinni sök þá gera menn það þannig, taka það fram að í þessum skilningi skuli staðfesting Orkustofnunar á kerfisáætlun teljast stjórnvaldsákvörðun og vera kæranleg o.s.frv. Þá er málið afgreitt, enginn vafi.

Ég segi alveg eins og er: Ég vil vera viss í minni sök þegar ég sé í umsögn aðila eins og Skipulagsstofnunar að þeir telja þetta vera óljóst, vera álitamál.