144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:16]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna í dag. Hún hefur verið mjög góð. Það er mjög mikilvægt að skiptast á skoðunum, fræðast um álit annarra þingmanna og fá þá til að miðla reynslu sinni um þessi mál og önnur. Ég verð að segja að ég sakna svolítið ákveðinna aðila í salnum, af því að umræðan er mjög góð. Ég sakna stjórnarliða af því að við getum vel unnið þetta mál betur. Umræðan hér hefur hjálpað til og ætti að hjálpa okkur í atvinnuveganefnd.

Ég vil fyrst segja að auðvitað er mikilvægt að byggja upp og styrkja raforkukerfið, flutningskerfi raforku á Íslandi. Ég held að enginn deili um það. En það er, eins og fram hefur komið, peningaspursmál. Það er byrjunin á þessu. Við erum að gefa Landsneti ákveðnar leiðsagnarreglur um línulagnir, um rafstrengi eða línu í lofti.

Þetta frumvarp er að mörgu leyti, svo að ég dragi eitthvað jákvætt fram, ágætisleiðsagnarreglur frá Alþingi um praktíska þætti sem varða línulagnir og lagningu rafstrengja í jörðu, svo langt sem það nær. Við höfum fjallað um og skilið á milli, skilgreint og búa til stefnu um fyrirkomulag meginflutningskerfis og fyrirkomulag lágspennta dreifikerfisins og landshlutakerfisins. Við höfum samhliða rætt um þingsályktunartillögu sem fjallar meira um kostnað eða lagningu strengja eða línu. Við höfum veitt Landsneti leiðsögn varðandi kostnað vegna þessa, af því að eins og við vitum er það enn þá þannig, og verður vafalaust áfram, að dýrara er að leggja strengi í jörðu en í lofti. Það eru alltaf gerðar meiri og meiri kröfur um að leggja strengi í jörðu og við viljum efla okkur í því og bæta. En það er dýrt og þess vegna þarf að búa til einhvern ramma fyrir það svo að stofnanir ríkisins geti unnið innan hans. Það hefur verið verkefnið.

Þetta er ágætlega gert í frumvarpinu en er þó ekki fullnægjandi. Kannski er það ekki hægt en ég tel að frumvarpið og nefndarálit meiri hluta hefðu átt að útskýra betur með dæmum hvaða leið skyldi velja í dæmigerðu tilfelli, hvaða leið skuli velja ef farið er yfir land sem hefur mikið umhverfislegt gildi, hvaða leið skuli velja í þéttbýli o.s.frv. Við hefðum þurft að skýra það aðeins betur, því að eins og fram hefur komið er uppi mjög mikil óvissa hjá umsagnaraðilum um hvað nákvæmlega er átt við. Það gengur auðvitað ekki að vera óskýr í lagasetningu, við viljum það ekki, held ég. Ég tel að við þurfum að skoða það betur.

Svo er hitt annað og miklu stærra mál, og þá kem ég að göllunum, að þetta frumvarp þrengir mjög að skipulagsvaldi sveitarfélaga. Það er stóra breytingin hér. Ég hef skilning á báðum hliðum, verð ég að segja. Mér finnst skipulagsvaldið mjög heilagt en ég skil að þegar við ræðum uppbyggingu raforkukerfisins fyrir allt landið þurfi óháður aðili að meta heildarhagsmuni fyrir allt landið versus hvert og eitt svæði, því að svæðin og sveitarfélögin geta auðvitað verið ósammála sín á milli. En ég tel að það sé vel hægt að gera í góðu samráði.

Varðandi kerfisáætlunina vil ég taka undir það sem kom fram í mál hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur áðan, að kerfisáætlun ætti ekki að vera eins úr garði gerð og hún er núna. Við stimplum hana héðan frá Alþingi og svo eiginlega ekki söguna meir. Ég sá alltaf fyrir mér og gerði eiginlega ráð fyrir því að við værum að ræða eitthvert apparat sem kæmi inn í þingið milli ákveðinna tímabila og farið væri heildstætt yfir það, af því að auðvitað breytast forsendur og áætlanir. En ég skil þetta svo, og ég vona að einhver leiðrétti mig ef það er rangur skilningur, að það sé algjörlega á forræði ráðherra núna, eða með þessu frumvarpi sem setur reglugerðir um svokallaðar valkostagreiningar línuleiða, hvar þessar línur liggja. Við gefum út leiðsagnarreglur um kostnað og umhverfissjónarmið og annað, sem eru reyndar ekki tæmandi, finnst mér, en svo ætlum við ekkert að ræða meira hvort við séum t.d. að leggja línu á Sprengisandi eða hvernig hún skuli vera útbúin. Það þykir mér ótækt.

Þessar leiðsagnarreglur, eða hvað á ég að segja, þessi uppskrift að formi hérna dugir ekki til til þess að hægt sé að setja hana í hendurnar á Landsneti og segja: Nú skuluð þið ákveða þetta. Eða láta hana í hendur ráðherra og segja: Nú skuluð þið finna út úr þessu og eftir því hvað kostar minnst. Ég tel að umhverfissjónarmiðum sé ekki gert nógu hátt undir höfði. Mér er ekki ljóst til dæmis hvernig umhverfiskostnaður er metinn. Hvernig er hann metinn í valkostagreiningu ráðherra? Þetta eru mjög pólitískar spurningar. Það er mjög pólitísk spurning hvort fara eigi með línu yfir Sprengisand og við þurfum að ræða það hér, til þess erum við kjörin. Það hræðir mig svolítið, eða mjög mikið, að við séum einhvern veginn að stimpla þetta í eitt skipti og svo er það horfið á braut. Það gengur ekki.

Aðeins að þeirri gagnrýni sem sambandið, Skipulagsstofnun og aðrir hafa komið með á frumvarpið. Það hefur náttúrlega verið reifað áður og ástæðulaust að fara aftur í það, en meginmálið er þetta: Frumvarpið er óskýrt. Fólk skilur það ekki, og þá erum við að bjóða upp á vandræði. Ég efast um að það sé vilji meiri hluta atvinnuveganefndar, ég tel það alls ekki vera svo. Við höfum fundað, eins og fram hefur komið, um 17 sinnum um þetta mál og það er alveg vilji, held ég, til þess að gera þetta almennilega. En við megum ekki flýta okkur á lokametrunum. Það hefur verið nokkur tilhneiging til þess. Ef stærstu aðilarnir skilja ekki um hvað málið snýst, skilja ekki í raun hvert uppleggið er, hverjar leikreglurnar eru, þurfum við að skýra það betur. Þá þurfum við að leggjast betur yfir það og við megum ekki gera það á handahlaupum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja þetta gott í bili. Ég hef óskað eftir því að fá gesti inn á milli 2. og 3. umr. á fund nefndarinnar og ég vona að hv. atvinnuveganefnd geti róað sig svolítið. Það er til dæmis verið að vinna að landsskipulagsstefnu fyrir allt landið, sem kerfisáætlun á auðvitað heima í og ég hefði viljað láta vinna það samhliða. Landsskipulagsstefnan á, að mér skilst, að vera tilbúin á þessu ári. Ég skil vel þá þingmenn sem eru óþolinmóðir og segja: Það liggur á þessu. Ég skil það mjög vel, en við verðum að vanda okkur og gera þetta vel svo að við búum ekki til eitt allsherjarklúður.