144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Atvinnuveganefnd Alþingis óskaði eftir því við umhverfis- og samgöngunefnd að hún veitti umsögn um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, með síðari breytingum, og tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Því miður er það þannig að ýmis málefni skarast á milli nefnda. Við í umhverfis- og samgöngunefnd höfum reyndar ekki mikið verið á því að senda mál til umsagnar í aðrar nefndir. Við höfum tekið málin fyrir örugglega og unnið þau sjálf, en þökkum að sjálfsögðu þá virðingu sem atvinnuveganefnd hefur sýnt umhverfis- og samgöngunefnd.

Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, hefur umhverfis- og samgöngunefnd á málefnasviði sínu meðal annars umhverfismál, skipulags- og byggingarmál, samgöngumál, byggðamál og málefni sveitarstjórnarstigsins og verkaskiptingu þess og ríkisins. Nefndin hefur því einskorðað umfjöllun sína við atriði sem fjalla undir málefni hennar og hefur fengið til sín gesti sem tengjast því.

Áður en ég fer yfir frumvarpið vil ég segja eitt. Það virðist vera töluverður misskilningur uppi um það hver valdmörk sveitarfélaga og löggjafans séu í landinu. Ég hef hlustað á umræður hér í allan dag og mér finnst menn rugla því svolítið saman. Menn tala um skipulagsvald sem er hugtak sem er hvergi að finna í lögum. Það er hins vegar talað um skipulagsskyldu og það er fjallað um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga í 78. gr. stjórnarskrárinnar. Þann rétt má hins vegar takmarka með almennum lögum þannig að það er löggjafinn sem ákveður valdsvið sveitarstjórnanna, það er ekki öfugt. Þessi réttur er ekki heilagur á nokkurn hátt, eins og því miður var fleygt fram í umræðunum í dag. Við höfum á þessu ári eða á síðasta ári reyndar, síðasta kjörtímabili, sett mörg lög sem koma inn á skipulagsskyldu sveitarfélaga. Við höfum fært það sem hefur verið á höndum sveitarfélaga yfir til löggjafans og öfugt.

Þess vegna var ég glaður að heyra hv. þm. Kristján L. Möller minnast á að það væru undantekningartilvikin, hann nefndi sveitarfélagið Skagafjörð, sem gerðu það að verkum að Alþingi yrði að taka málið í sínar hendur, löggjafinn yrði að taka af skarið í viðkvæmum málum, sérstaklega þegar hagsmunirnir væru miklir.

Ég var líka ánægður að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon nefna að það væri mikill munur, eðlismunur, á því þegar vald væri veitt til stjórnsýslustofnana eða þegar valdið væri hjá Alþingi. Þetta skiptir allt saman gríðarlega miklu máli, virðulegi forseti, og er eitt af þeim atriðum sem við í umhverfis- og samgöngunefnd skoðuðum ítarlega á fundum nefndarinnar.

Umfjöllun nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum afmarkaðist að mestu leyti við a-lið 2. gr., um kerfisáætlun og samráð við sveitarfélög, og c-lið 2. gr., um stöðu kerfisáætlunar flutningsfyrirtækisins gagnvart skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Í þeim ákvæðum frumvarpsins eru stór álitamál sem snúa að sjálfsstjórnarrétti og skipulagsskyldu sveitarfélaganna, sem umsagnaraðilar hafa gert miklar athugasemdir við. Samráð við sveitarfélög sem eiga hagsmuna að gæta og aðra aðila er útfært í 6. mgr. nýrrar 9. gr. a og á það sér stað við vinnslu kerfisáætlunar. Samkvæmt c-lið 2. gr. frumvarpsins ber sveitarfélögum að samræma skipulagsáætlanir sínar við kerfisáætlun innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar. Sveitarstjórnum ber að tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar og sveitarfélögum verður óheimilt að víkja frá tillögu flutningsfyrirtækisins ef það leiðir til þess að flutningsfyrirtækið nái ekki að uppfylla skyldur sínar samkvæmt kerfisáætlun.

Af því má ráða að flutningsfyrirtæki er sett í yfirburðastöðu gagnvart sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum, t.d. jarðeigendum, og mun geta knúið sveitarfélög til að breyta skipulagsáætlunum sínum til samræmis við samþykkta kerfisáætlun innan tiltölulega skamms tíma. Ekki er gert ráð fyrir málsmeðferð sem leiði til sátta þegar ágreiningur er milli aðila og má í því sambandi benda á að ekki er um jafn fortakslausa skyldu að ræða fyrir sveitarfélög að samræma skipulagsáætlanir sínar samgönguáætlun, sem þó er samþykkt sem ályktun Alþingis, en kerfisáætlun er hins vegar ákveðin og afgreidd af stjórnsýslustofnunum án beinnar aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Þá er heldur ekki á neinn hátt horft til þess að flutningsfyrirtæki þurfi að taka tillit til byggðaþróunar sveitarfélaga eins og hún kemur fram í aðalskipulagi þeirra, en nauðsynlegt er að raflínur standi ekki í vegi fyrir því að sveitarfélög geti þróast á eðlilegan hátt.

Meiri hlutinn geldur varhuga við framangreindum atriðum og telur að leggja þurfi meiri áherslu á samráð allra aðila og að samráð fari fram fyrr ferlinu þannig að ná megi sátt um lagningu raflína. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á ákvæði 28. gr. vegalaga, nr. 80/2007, og á frumvarp til breytinga á þeim lögum sem nú er til meðferðar á Alþingi og var einmitt hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Í 28. gr. laganna er svipað ákvæði og í c-lið 2. gr. frumvarps til breytinga á raforkulögum þess efnis að sveitarfélagi sé óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar um legu þjóðvega feli tillaga sveitarfélags í sér minna umferðaröryggi en tillaga Vegagerðarinnar. Í frumvarpi til breytinga á vegalögum um samráðsskyldu Vegagerðarinnar og sveitarfélaga var samráðsskylda Vegagerðarinnar og sveitarfélaga aukin með því að Vegagerðin skuli þegar við á leggja fram mat á umferðaröryggi mismunandi kosta við vegalagningu nægilega tímanlega til að skipulagsnefnd geti tekið afstöðu til matsins við mótun aðalskipulagstillögu. Þá fer um málsmeðferð að öðru leyti samkvæmt skipulagslögum. Að mati nefndarinnar mætti horfa til þessarar útfærslu í frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, en fyrrgreind tillaga er niðurstaða samráðs Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga, og þess sé gætt að um raunverulegt samráð sé að ræða þar sem einn aðili er ekki í yfirburðarstöðu gagnvart öðrum.

Ég vil benda á í því samhengi að þess misskilnings hefur gætt að sveitarfélög geti einhvern veginn lagt stein í götu vegalagningar. Eins og ég rakti áðan er það alltaf Alþingis og stjórnvalda að taka ákvörðun um vegalagningu, en að sjálfsögðu viljum við tryggja að samráðið sé ítarlegt og mikið við sveitarfélögin.

Hv. þm. Kristján L. Möller nefndi áðan að hann hefði ekki séð þessa tillögu fyrr en í morgun, en ég fagna því að hann taki undir með umhverfis- og samgöngunefnd um að líta eigi til samgönguáætlunar þegar menn fara í gerð kerfisáætlunar og að nota megi þau sjónarmið sem þar er byggt á. Þetta kom reyndar fram í áliti frá Skipulagsstofnun, dagsettu 2. desember síðastliðinn.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er, eins og ég nefndi, farið yfir þessi álitaefni á skýran hátt. Þar er einnig vikið að öðru álitaefni því tengdu, sem er álitamál um hvers eðlis ákvörðun Orkustofnunar um samþykkt kerfisáætlunar er og hvort hún sé þá kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, úrskurðarnefndar raforkumála eða ráðherra. Stjórnvaldsákvarðanir eru almennt kæranlegar til æðra stjórnvalds eða sérstakra kærunefnda, en sérstök kæruheimild er ekki í frumvarpinu. Í því ljósi þarf einnig að athuga að samkvæmt 1. gr. frumvarpsins mun ekki þurfa leyfi Orkustofnunar fyrir nýju flutningsvirki ef gert er ráð fyrir slíkri framkvæmd í framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Þar sem leyfisveiting er stjórnvaldsákvörðun ætti staðfesting Orkustofnunar einnig að vera stjórnvaldsákvörðun sem þá er kæranleg af þeim sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta tengda ákvörðuninni, sem geta verið sveitarfélög, hagsmunasamtök, landeigendur og fleiri. Kveða þarf skýrt á um það í frumvarpinu og gæta að því að þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda kerfisáætlun komi að vinnu hennar á fyrri stigum til að gæta þeirra hagsmuna sinna.

Í umsögn Skipulagsstofnunar og í máli annarra umsagnaraðila er einnig bent á það að kerfisáætlun fellur undir gildissvið laga um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006. Ekkert er vikið að því í frumvarpinu en umhverfismat kerfisáætlunar þarf að fara fram samhliða mótun áætlunarinnar og áður en kerfisáætlun er staðfest af Orkustofnun. Eðlilegt er að það endurspeglist í ákvörðun raforkulaga er varða mótun kerfisáætlunar.

Í 3. mgr. nýrrar 9. gr. a laganna kemur fram að kerfisáætlun skuli byggja á raunhæfum sviðsmyndum um þróun raforkuframleiðslu, raforkunotkunar, markaðsþróunar og raforkuflutnings til annarra landa eftir því sem við á og að í kerfisáætlun skuli gera grein fyrir forsendum, sviðsmyndum og spám er stuðst er við. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð frumvarpsins kemur fram að slíkar forsendur geti verið áætlanir um þróun vinnslu út frá virkjunarkostum í nýtingar- og biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar. Í því sambandi bendir nefndin á að kerfisáætlun er til 10 ára og röðun virkjunarkosta í nýtingarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar feli ekki sjálfkrafa í sér að ráðast skuli í virkjanir á þeim virkjunarkostum. Þeir virkjunarkostir sem raðað er í biðflokk eru enn fjarlægari. Af þeim sökum verður vart talið rökrétt að byggja á þeim atriðum í raunhæfri áætlun.

Að mati nefndarinnar eru framangreind atriði þess eðlis að töluverða breytinga er þörf á frumvarpinu. Frumvarpið gengur í öfuga átt við löggjafarþróun undanfarinna ára að því leyti að samráð við almenning og hagsmunaaðila hefur verið aukið við gerð viðamikilla opinberra áætlana og málum beint í sáttarfarveg fremur en að um einhliða ákvarðanatöku sé að ræða, líkt og frumvarpið virðist byggja á.

Við fjöllum einnig um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Almennt séð fagnar meiri hluti því að stjórnvöld skuli setja sér stefnu til langs tíma um lagningu raflína. Uppbygging flutningskerfis raforku er afar mikilvæg og nauðsynlegt er að styrkja kerfið þannig að allir landsmenn búi við viðeigandi raforkuöryggi. Meiri hlutinn telur rétt að víkja að nokkrum atriðum í þingsályktunartillögunni sem umsagnaraðilar hafa gert athugasemdir við og nefndin telur að skoða þurfi.

Að mati meiri hlutans er aukin áhersla á lagningu jarðstrengja jákvæð. Almennt eru umhverfisáhrif jarðstrengja minni en loftlína, en þó þarf að gæta þess að jarðstrengir henta ekki alls staðar og meta þarf það í hverju tilviki fyrir sig með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Fyrir nefndinni kom þó fram að markmið að um 80% raflína verði í jörðu árið 2035 geri það að verkum að engar háspennulínur sem bera 220 kílóvatta straum muni verða lagðar í jörðu þar sem meginreglan í meginflutningskerfinu sé samkvæmt tillögunni að notast við loftlínur og meginflutningskerfið er um 20% af dreifi- og flutningskerfi raforku. Meiri hlutinn bendir á að þetta er ekki í samræmi við þá stefnumörkun sem unnið hefur verið eftir síðustu ár, að auka verulega hlut jarðstrengja í kerfinu. Þá hefur meiri hlutinn einnig athugasemdir við kostnaðarvinnu jarðstrengja og loftlína ef miðað er við að jarðstrengur sé ekki meira en 1,5 sinnum dýrari en loftlína til að um raunhæfan kost sé að ræða. Meiri hlutinn telur að taka þurfi kostnaðarviðmiðið til endurskoðunar af hálfu atvinnuveganefndar sem og hvernig það er reiknað. Mikil þróun er í framleiðslu og gæðum jarðstrengja. Má því ætla að á komandi árum verði þær enn fýsilegri kostur en nú er, en þó þarf að vera um raunverulegan valkost að ræða. Þá mun sú tillaga sem birtist í 2. lið þingsályktunartillögunnar um afnám vörugjalda á jarðstrengjum einnig gera þá að hagkvæmari kosti en nú er.

Í lið 1.3. í tillögunni koma fram viðmið sem réttlætt geta að jarðstrengur sé valinn frekar en loftlína þó svo að jarðstrengur sé dýrari en þau kostnaðarviðmið sem fram koma í lið 1.2., þ.e. ef jarðstrengur er meira en 1,5 sinnum dýrari en loftlína. Meiri hlutinn tekur undir með þeim umsagnaraðilum sem benda á að bæði séu viðmiðin ekki nægilega skýr og ekki sé nægilega rökstutt af hverju vísað sé til þeirra tilteknu svæða sem tilgreind eru en ekki til annarra svæða, sem ætla má að hafi jafn mikið eða meira verndargildi út frá umhverfis- og samfélagslegum sjónarmiðum. Í tillögunni er vísað til skilgreinds þéttbýlis, friðlands samkvæmt 53. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, flugvalla með tilliti til flugöryggis, þjóðgarða og friðlands sem verndað er af öðrum sökum en sérstaks landslags samkvæmt 53. gr. náttúruverndarlaga. Umsagnaraðilar hafa bent á að önnur svæði en þau sem talin eru upp geti átt að njóta sérstakrar verndar og hefur í því sambandi verið bent á sérstök vatnsverndarsvæði, fólkvanga samkvæmt 55. gr. náttúruverndarlaga, sérstök verndarsvæði samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga, svæða á náttúruminjaskrá eða náttúruverndaráætlun, svæði sem njóta verndar samkvæmt skipulagsáætlunum sveitarfélaga á grundvelli skipulagslaga, nr. 123/2010, og lögum um menningarminjar, nr. 80/2012. Þá þurfi einnig að gæta þess að gæði þessara svæða rýrni ekki með lagningu raflína í jaðri þeirra. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir og telur að hafa þurfi hliðsjón af framangreindum atriðum. Þau útiloka ekki fyrir fram tilteknar raflínur heldur þurfi að vera um heildarmat hagsmuna að ræða. Í því tilliti er brýnt að ekki verði aðeins horft til fjárhagslegra hagsmuna ríkisins af lagningu og viðhaldi raflína heldur verði einnig horft til víðari samfélagslegri hagsmuna.

Það náðist ágætissátt, ætla ég að leyfa mér að segja, um þetta mál í nefndinni. Þó er eitt og annað sem stóð út af borðinu. Það útskýrir til að mynda af hverju minni hlutinn ákvað að vera með sérálit þó hann tæki á mestan hátt, eins og ég skil það, undir það sem fram kemur í þessu áliti. Eins bentu þingmenn Sjálfstæðisflokksins á að til þess að svona nefndarálit sé fyllilegt þyrfti að sjálfsögðu að taka inn aðra þætti, en þeir féllust á að það væri kannski ekki í verkahring nefndarinnar. Ég reikna með að þeir geri grein fyrir sjónarmiðum sínum, annaðhvort í ræðu eða við atkvæðagreiðsluna.

Að öðru leyti vil ég þakka nefndinni fyrir gott starf. Við ákváðum að vinna málið hratt og örugglega, kölluðum eftir umsögnum og fengum marga aðila í einu á fundi. Það er algjör óþarfi að halda marga fundi þegar umsagnir eru skýrar. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að vanda vinnu okkar eins og við höfum gert og eftir hefur verið tekið.