144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og reyndar allri umhverfis- og samgöngunefnd fyrir góð álit og vandaða vinnu. Ég hef nú þegar hrósað því hér í ræðu að þetta sé góð vinna. Það má svo deila um það, af því að hv. þingmaður talaði um virðingu, hversu mikla virðingu atvinnuveganefnd hefur sýnt þeirri vinnu umhverfis- og samgöngunefndar. Eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á er þetta mál að uppistöðu til á verksviði umhverfis- og samgöngunefndar, það vill nú bara þannig til. Þetta er auðvitað mikið umhverfismál og þetta er skipulagsmál. Og vandasömustu þættirnir í þessu snúa að því. Í reynd hefði atvinnuveganefnd átt að vinna að verulegu leyti á grundvelli álitsins frá umhverfis- og samgöngunefnd, það liggur í hlutarins eðli. (KLM: Það hefði þá þurft að koma fyrr.) Það er nú það. Hvað liggur á? Hvaða voðalega andarteppa er þetta? Er allt að verða rafmagnslaust, eða hvað? Ég held ekki. Flas er ekki til fagnaðar. Þessi leiðangur mun ekki reynast gæfusamur ef menn nota það eitt sem rök að menn hafi ekki tíma til að vinna hlutina vel og vanda þá.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um (Gripið fram í.) stöðu kerfisáætlunar og þá leið sem hér hefur verið nefnd, að Alþingi staðfesti hana að lokum, til dæmis tíu ára ramma, og gæti síðan eftir atvikum metið hvort þriggja ára framkvæmdatíminn þyrfti alltaf endilega að koma fyrir þingið, en til dæmis að tíu ára megináætlunin væri staðfest af Alþingi. Ég bendi á að það verklag hefur verið að þróast að allar stærri áætlanir eru samþykktar af Alþingi. Það gildir um samgönguáætlun, það gildir um rammaáætlun, það gildir um jafnréttisáætlun, það gildir um byggðaáætlun, það gildir um heilbrigðisáætlun o.s.frv.

Er ekki þessi (Forseti hringir.) áætlun svo stór og mikilvæg að það sé eiginlega skrýtið og undarlegt frávik ef hún endar ekki sína vegferð á (Forseti hringir.) Alþingi til staðfestingar?