144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti það í ræðu minni að ég tel að tryggja þurfi aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Ég benti líka á að við höfum skapað nokkuð góða sátt um hvernig við vinnum samgönguáætlun og það gæti verið fyrirmynd þegar við búum til kerfisáætlun.

Varðandi það hvernig þingsköpin deila málum milli nefnda er eitthvað sem ég ætla ekki að fjalla ítarlega um í þessu stutta andsvari, en ég tel samt að þegar þingskapalögin voru samþykkt eða breytingar á þeim, mig minnir árið 2011, þá hafi verið gerð ýmis mistök sem ég held að væri vert að fara yfir. Það fer reyndar ágætisvinna fram veit ég af hálfu forseta og ég veit að hann mun skoða þessa þætti, en ég vil síðan segja að samstarfið við atvinnuveganefnd hefur verið með ágætum. Við töldum að umsagnarfrestur, eða þessi tveggja vikna umsagnarfrestur, væri náttúrlega svolítið skammur og eiginlega ótrúlegur þegar gert er ráð fyrir að kallað sé eftir umsagnaraðilum. Ég held að enginn ætlist til þess hér að við spyrjum hvert annað milli nefnda eða einstaka þingmenn um afstöðu þeirra í tilteknum málum, heldur að nefndirnar vinni sín mál með því að kalla og leita eftir umsögnum.