144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er reyndar til sú ágæta leið sem er of lítið notuð að mínu mati að nefndir vinni mál að einhverju leyti saman þegar svona háttar á, haldi eftir atvikum sameiginlega fundi þar sem þær taki mikilvæga gesti inn o.s.frv. Það mætti spara tvíverknað í nefndunum og hjá gestunum sem í mörgum tilvikum eru þeir sömu sem koma fyrir fleiri en eina þingnefnd í mismunandi ferðum til þingsins.

En annað vil ég nefna við hv. þingmann, þ.e. það sem segir í umsögn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar: „Að mati nefndarinnar eru framangreind atriði þess eðlis að töluverðra breytinga er þörf á frumvarpinu.“

Nú er það svo að meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til þrjár breytingar, þær eru ekki veigamiklar. Í fyrsta lagi að í stað orðsins „skipulagsmál“ komi: skipulagsákvarðanir. Í öðru lagi að lokamálsliður 1. mgr. 2. gr. falli brott, þ.e. allt sem þar er sagt er búið (Forseti hringir.) að koma fram áður í sömu grein. Í þriðja lagi að lögin öðlist þegar gildi í staðinn fyrir 1. janúar síðastliðinn. (Forseti hringir.) Mætir þetta kröfum meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um meiri háttar breytingar á frumvarpinu?