144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:13]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í síðara andsvari mínu ætla ég að fjalla frekar um þá málsmeðferð sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hefur viðhaft í þessu máli. Ég sé í fundargerðum atvinnuveganefndar að haldnir hafa verið 18 fundir um þetta mál, en hjá umhverfis- og samgöngunefnd eru tveir fundir skráðir um málið, annar 17. nóvember og hinn 10. desember. Málið var sent frá atvinnuveganefnd 12. nóvember með umsagnarfresti til 26. nóvember og eins og segir í gögnum sem fylgja málinu eru tveir fundir skráðir í umhverfis- og samgöngunefnd. Það kann að vera — ég ætla að taka það skýrt fram, virðulegi forseti — að ekki sé búið að samþykkja allar fundargerðir umhverfis- og samgöngunefndar, en mér sýnist að málið hafi ekkert verið rætt í febrúar.

Virðulegi forseti. Í síðara andsvari mínu vil ég því gagnrýna formann umhverfis- og samgöngunefndar fyrir að koma svona seint fram (Forseti hringir.) með þau aðvörunarorð sem hér má finna. Ég get sagt það fyrir mitt leyti — ég var að vísu veikur í síðustu viku — að ég sá umrædda umsögn í fyrsta skipti í fylgiskjölum í nefndaráliti hv. þm. Lilju Rafneyjar (Forseti hringir.) Magnúsdóttur. Þetta kom hvergi annars staðar fram.