144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þingmanns var töluvert lagatorf fyrir mig. Reynsla mín af lögfræðingum er yfirleitt sú að þeim tekst ekki alltaf að einfalda flókna hluti, en mér hefur samt yfirleitt þótt sem hv. þingmanni hafi stundum tekist að skýra vel út flókna hluti. Ég var ekki mjög miklu nær eftir ræðu hv. þingmanns. Mér fannst vera ákveðið ósamræmi á millum tiltölulega óskýrs nefndarálits sem hann hafði hér framsögu fyrir og hins vegar nokkuð skýrs fyrri parts ræðu hv. þingmanns.

Hv. þingmaður segir, og meiri hlutinn í áliti sínu, að talsverðra breytinga þurfi á frumvarpinu til að hægt væri að samþykkja það, en það kom hins vegar tiltölulega óljóst fram í álitinu hvaða breytingar þetta voru. Það skýrðist aðeins fyrir mér þegar hv. þingmaður flutti ræðu sína hérna áðan.

Mig langar að koma með tvær spurningar til hans til að ég skilji frekar hvað hann nákvæmlega var að fara.

Fyrri spurningin er þessi. Telur hv. þingmaður að slá þurfi í gadda með einhverjum hætti í frumvarpinu að kerfisáætlun verði lögð fyrir Alþingi, eins og til dæmis samgönguáætlun?

Í öðru lagi. Telur hann að setja þurfi inn í frumvarpið skýra kæruheimild?

Mál af þessum toga, það er algjörlega klárt, munu skapa erfiðleika, spennu og deilur. Það er alltaf þannig. Þegar upp er staðið verða menn hreinlega að sætta sig við niðurstöðuna, en þá þarf að reyna að búa svo um hnútana að menn verði sáttir við ferilinn sjálfan. Mér finnst sem ferillinn sé ekki ljós eða skýr í frumvarpinu. Og það sem mér finnst verulega áhöld um og vanhöld (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnar er akkúrat skýrt ákvæði um kæruheimildina. Ég (Forseti hringir.) geri mér alveg grein fyrir því hvað er að finna í raforkulögunum en mér finnst að það þurfi skýra kæruleið í þetta (Forseti hringir.) tiltekna frumvarp. Er það það sem hv. þingmaður var að segja (Forseti hringir.) að þyrfti að koma inn?