144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í þeim umsóknum sem við fengum í atvinnuveganefnd var meðal annars gagnrýni frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Þar segir að gert sé ráð fyrir því að kerfisáætlun sé sett inn á skipulag sveitarfélaga innan fjögurra ára frá samþykktinni. Spurt er eða því velt fyrir sér hvort ekki sé heppilegra að löggjafinn setji kerfisáætlunina inn á landsskipulagsstefnu sem staðfest verði af Alþingi.

Mig langar að heyra viðhorf hjá hv. þingmanni til þess. Við höfum beðið eftir landsskipulagsáætlun og manni finnst hætta á því að þetta tvennt geti skarast ef ekki er gert eins og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga leggja til, að setja kerfisáætlunina inn á landsskipulagsstefnu sem Alþingi þarf að staðfesta.

Því er líka velt upp, sem mig langar að bera undir hv. þingmann, hvort ekki sé nauðsynlegt að skilgreina hver beri skaðabótaskyldu gagnvart landeigendum þar sem það er samkvæmt frumvarpinu skilyrt að sveitarfélögin breyti skipulagi á grundvelli kerfisáætlunar. Mig langar að heyra viðhorf hennar til þess.

Varðandi samráðið, samráðsferilinn hjá Landsneti og Orkustofnun, er talað um sex vikna frest. Er það ekki of skammur tími í svo mikilvæg mál sem þessi? Þarf ekki lengri tíma en sex vikur?