144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég kem að því alveg síðasta tel þetta heldur skamman tíma og sérstaklega þegar við horfum til jafn mikillar óvissu og mér sýnist þetta mál skapa varðandi málsmeðferðina og það sem býr þar að baki. Það eru ekki margar leiðir og mér sýnist á öllu að þetta sé sú harkalegasta sem við höfum séð í löggjöf, vegna þess að við sjáum sveitarfélögum settar skorður með ýmsum hætti í ýmissi löggjöf, og það er farið ágætlega yfir það í einhverri þeirra umsagna sem eru undir í þessu máli.

Við sjáum dæmi til að mynda í lögum um rammaáætlun. Þar eru sveitarfélögum settar skorður, þeim ber að samræma skipulag sitt við rammaáætlun, þ.e. nýtingar- og verndarflokkinn. En þar koma síðan greinar inn sem milda það allt saman töluvert. Sveitarfélögin hafa tíu ár og svo aftur þrjú ár til þess að aðlaga sig og innan þess ramma er oft gert ráð fyrir að breytingar hafi átt sér stað, þannig að sveitarfélögin hafa mjög rúman tíma. Hérna er hins vegar gert ráð fyrir banni, þau hafi fjögur ár, sex vikur til að koma með athugasemdir og það er verið að keyra hlutina dálítið skart áfram, sérstaklega í ljósi þess að verið er að setja þeim jafn miklar skorður og raun ber vitni. Það má vel vera að þetta eigi heima með landsskipulagi, hvort þetta eigi heima í skapalóni eins og samgönguáætlunarferlið er allt saman, hvort menn eigi að fara þá leið að milda þetta aðeins eins og gert er í lögum um rammaáætlun, það finnst mér að eigi allt eftir að skoða. En mér finnst sú leið sem er lögð til algjörlega ófær. Hún gengur allt of langt. Málið er ófullbúið (Forseti hringir.) að mínu mati og það hefur ekki verið rætt nægjanlega um aðra og fleiri valkosti sem eru hugsanlega betri (Forseti hringir.) en sá sem er lagður til hér.