144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:48]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það hefur vakið athygli að í 2. gr. frumvarpsins er ekki minnsta tillit tekið til umhverfismála eða minnst á ferðamál, byggðamál. Þykir hv. þingmanni ekki óeðlilegt að allt sé tekið út varðandi framkvæmd kerfisáætlunar, að þeir þættir séu ekki með þegar þetta er undir? Það hefur verið gagnrýnt í umsögnum.

Ég vil líka heyra álit hv. þingmanns á þriðju raforkutilskipun Evrópusambandsins sem okkur er skylt að taka upp og getur það orðið innan tíðar. Þar er kveðið á um sjálfstæði stofnana við eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar. Telur hv. þingmaður nægilegt sjálfstæði til staðar hjá Orkustofnun? Þarf ekki að vera einhver annar óháður aðili sem kemur þar að málum, með fullri virðingu fyrir Orkustofnun?

Hv. þingmaður kom inn á áætlanir eins og samgönguáætlun sem er lögð fyrir Alþingi. Það má nefna fleiri áætlanir, t.d. fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun. Allt eru þetta áætlanir sem koma til umfjöllunar á Alþingi. Er kerfisáætlun ekki fyllilega sambærileg, ætti hún ekki að koma til umræðu á Alþingi þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafa þá aðkomu að málinu? Finnst hv. þingmanni ekki verið að færa þetta allt of langt frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum og til embættismanna og stofnana (Forseti hringir.) á vegum ríkisins?