144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er líka eitt af þeim atriðum sem Skipulagsstofnun nefnir í sinni umsögn sem óljóst, eins og að það séu mótsagnir þarna. Samkvæmt 1. mgr. nýrrar 9. gr. a er fyrirhugað að flutningsfyrirtæki skuli leggja kerfisáætlun fyrir Orkustofnun til samþykktar. En samkvæmt 1. gr. frumvarpsins mun ekki þurfa leyfi Orkustofnunar fyrir nýju flutningsvirki ef gert er ráð fyrir slíkri framkvæmd í framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Það eru ýmis svona atriði sem bent er á í umsögnum. Ég ætla ekki að segja að atvinnuveganefnd hafi ekki farið vel yfir málið eða hafi ekki skilað skoðun sinni vel og að þeirra niðurstaða sé illa ígrunduð, ég er bara að biðja um að svona atriðum sé að minnsta kosti svarað þannig að menn rökstyðji hvers vegna þeir telji að ekki beri að hlusta á það sem hér segir. Fyrir okkur hinum standa spurningarnar algjörlega eftir og þess vegna kalla ég eftir því að menn reyni að hafa nefndarálit ítarlegri frekar en hitt og taka á öllum helstu álitamálum.

Þá kemur að því sem hv. þingmaður nefnir varðandi það hvort ágreiningurinn flytjist ekki bara til. Það segir líka í ágætri umsögn frá Skipulagsstofnun að um leið og mikilvægt sé að lagaumgjörð tryggi skilvirka áætlanagerð og ákvarðanatöku um innviði — ég held að ekkert okkar sé á því að ekki eigi að gera kerfisáætlun, við erum öll sammála um það, þetta snýst bara um útfærsluna og þá gagnrýni sem hefur komið innan úr stjórnkerfinu á þá útfærslu sem fyrir liggur og við erum að fara að samþykkja. Hér segir líka að þá skipti máli að inn í lagaumgjörðina sé byggð málsmeðferð sem geti leitt til sátta þar sem ágreiningur er fyrirséður (Forseti hringir.) og geti oft komið upp á millum þessara aðila frekar en að fara þá leið sem hér er, bara þrengja að mönnum, ýta þeim nánast alveg út í horn (Forseti hringir.) og senda þá inn í eitthvert óljóst kæruferli.