144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst segja að í sjálfu sér er enginn vafi í mínum huga um að svona lög þarf að setja og ég held að allir séu sammála um að full þörf er á frumvarpi á borð við það sem við erum að fjalla um. Málið snýst kannski fyrst og fremst um hvernig nákvæmlega lögin eru unnin og hvernig þau eru síðan aðlöguð að þeim umsögnum og efnislegu rökum sem borist hafa þinginu og nefndum þingsins í þeirri vinnu sem farið hefur fram síðustu mánuði.

Fyrst aðeins, hvað er hér á ferðinni? Gert er ráð fyrir að flutningsfyrirtæki skuli búa til kerfisáætlun, leggja hana fyrir Orkustofnun til samþykktar og þ.e. kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins í raforku. Þetta eru allir sammála um. Það er síðan Orkustofnun sem hefur eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar og skal meta hvernig henni er fylgt eftir og Orkustofnun er heimilt að krefjast þess að flutningsfyrirtæki geri breytingar á kerfisáætlun eftir því sem stofnunin telur þörf á.

Síðan er fjallað um stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagi sveitarfélaga og þar eru gerðar svolítið veigamiklar breytingar, sem sveitarfélögin hafa mótmælt, segja reyndar í umsögn sinni að í aðdraganda málsins hafi Samband íslenskra sveitarfélaga komið þeirri ósk á framfæri við ráðuneytið að í skýringum með frumvarpinu væri skýrt nánar, helst með raunhæfum dæmum, hvaða vandamál það væru sem ætlunin væri að leysa með því inngripi í skipulagsvaldið sem lagt er til í nýrri 9. gr. c.

Þarna er í raun og veru verið að taka skipulagsvald af sveitarfélögum og færa til stjórnsýslustofnunar, til Orkustofnunar, í raun og veru til flutningsfyrirtækis ef kerfisáætlun þess hefur fengið blessun Orkustofnunar. Ekki er gert ráð fyrir að slík áætlun komi til umfjöllunar á Alþingi eða verði til umfjöllunar eftir að hún hefur verið lögð fram og farið er að vinna eftir henni. Hún kemur ekki til kasta kjörinna fulltrúa nokkurs staðar. Þá hlýtur maður að spyrja: Ja, það hljóta að vera einhver efnisleg rök fyrir því að þetta er gert með þessum hætti og þau hljóti þá að vera að finna í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar, sem telur málið vera orðið fullþroskað og leggur það hér fram. En svo er ekki, og í rauninni er engum af þeim spurningum og þeirri gagnrýni sem fjölmargir umsagnaraðilar leggja fram svarað í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar. Það er í raun og veru látið eins og þær hafi ekki komið fram, þær sé hvergi að finna og maður veltir fyrir sér þegar maður les málið og umsagnirnar og les síðan nefndarálit meiri hlutans, til hvers umsagnarferlið eiginlega er, til hvers það er eiginlega hugsað af hálfu meiri hluta atvinnuveganefndar, hvaða hugmyndir menn hafa um það ferli þegar við blasir að ekki er einu sinni farið í efnisleg svör við gagnrýninni og svarað lið fyrir lið í nefndaráliti og sagt: Ja, þetta er rökstuðningur fyrir því að við kjósum að fara þessa leið. Nei, það er bara látið eins og þessi rök hafi ekki heyrst, hafi ekki verið sögð, hafi ekki verið send nefndinni.

Þetta er mikill ágalli á störfum nefndarinnar og það er auðvitað út af þessu sem margir hafa spurt sig í dag: Bíddu, er þetta mál tilbúið? Er það komið á þann stað að við eigum að vera hér í 2. umr.? Manni heyrist, þótt ekki sé nema bara á meiri hluta umhverfisnefndar, að ekki sé góð og jákvæð stemning fyrir því vinnulagi hv. atvinnuveganefndar í þinginu, (Gripið fram í.) já, um þetta vinnulag meiri hluta atvinnuveganefndar í þinginu. Það er mjög alvarlegt.

Það er allt á sömu bókina lært þegar kemur að umhverfismálum hjá núverandi stjórnarmeirihluta, hvort sem það er í rammaáætlun, náttúrupassa eða í þessu máli, þá er eftir fremsta megni reynt að horfa fram hjá umhverfismálum, reynt að láta eins og sjónarmið umhverfisins séu ekki til staðar, það séu ekki sjónarmið sem eigi að vega nokkuð, að minnsta kosti er ekki tekið neitt tillit til þeirra.

Það er dálítið merkilegt að í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

„Sambandið tekur undir ábendingar sem koma fram hjá mörgum umsagnaraðilum, um að verulega skortir á að vikið sé að umhverfissjónarmiðum í texta frumvarpsins.“

Það er umhugsunarefni þegar Samband íslenskra sveitarfélaga — sem ég er ekki að segja að sé einhver umhverfissóði heldur liggja hagsmunir þess annars staðar, það er fyrst og fremst að vernda hagsmuni sveitarfélaga — en þeir þar finna sig knúna til að geta þess í umsögn sinni um frumvarpið að þar sé ekki fjallað nægilega um umhverfisþátt málsins. Hvað erum við að tala um? Hvaða raunverulegu verðmæti eru það sem hér eru á ferðinni í þessu máli? Það er auðvitað það sem við komum til með að skila af okkur til næstu kynslóðar. Þegar allt kemur til alls eru það þau einu raunverulegu verðmæti sem okkar kynslóð getur skilað til næstu kynslóðar; það er hreint land og fagurt, það eru ósnortin víðerni, það er náttúra sem vel hefur verið farið með, hreint vatn, óspillt útsýni og vönduð vinnubrögð í umhverfismálum.

Af hverju halda menn eiginlega að hingað séu að flykkjast milljónir ferðamanna? Til að skoða raforkulínur? Það er auðvitað vegna þess að okkur hefur blessunarlega tekist að halda landinu hreinu og fögru og farið vel með það, þó að mikill vilji standi til þess að virkja mjög víða og koma hinum svokölluðu hjólum atvinnulífsins í gang, en það eru mjög gamaldags hjól sem menn tala þá um í því samhengi. Og það er mikil vanhugsun hjá meiri hluta þingsins þegar hann gengur fram með þeim hætti sem hann gerir ítrekað, ekki bara í þessu máli heldur líka í rammaáætlun, líka í náttúrupassanum, að horfa fram hjá þeirri nefnd sem á að fjalla sérstaklega um hlut náttúruverndar, umhverfisins í löggjöfinni. Það er mjög einbeittur brotavilji sem birtist hjá meiri hluta atvinnuveganefndar, ekki bara í þessu máli heldur fjölmörgum öðrum.

Látum það liggja á milli hluta, segjum sem svo að það sé bara einbeittur brotavilji, það sé ekki vilji til þess að láta náttúruna njóta vafans. Eru skipulagsmálin þá með heimilisfang sitt hjá atvinnuveganefnd? Nei, þau eru það ekki. Eru sveitarstjórnarmálin með þingfesti í atvinnuveganefnd? Nei, þau eru það ekki. Þau eiga ekki heima í þeirri nefnd. Þau eru í umhverfis- og samgöngunefnd, sem fékk mjög naumt skammtaðan tíma og svo ég noti orðalag eins hv. nefndarmanns í meiri hluta atvinnuveganefndar, ja, komið var fram við umhverfisnefnd eins og hvern annan umsagnaraðila í þessu máli, ein af fastanefndum Alþingis sem fær bara sömu trakteringar og aðrir umsagnaraðilar í þessu máli. Og þegar nefndin gat ekki skilað í tæka tíð áliti sínu eða umsögn þá er afgreitt úr nefndinni samdægurs, áður en álit umhverfisnefndar kom, meirihlutaálit atvinnuveganefndar og ekkert tillit tekið til umsagnar umhverfisnefndar.

Það sýnir nú þá hugsun og þann vilja sem er þar að baki. Það sama er upp á teningnum þegar kemur að rammaáætlun. Þar er gengið fram af fullkominni vanvirðingu, ekki aðeins við aðrar þingnefndir heldur líka þann lagaramma sem unnið skal eftir, lög um rammaáætlun, vernd og nýtingu. Þar er búið að taka heila og hálfa virkjunarkosti út fyrir sviga, settir í svokallaða flýtimeðferð. Þegar maður ætlar að fræðast um hvernig á að fara með virkjunarkosti sem eru í svokallaðri flýtimeðferð hjá verkefnisstjórn þá hlýtur maður að fletta upp á kaflanum í lögum um rammaáætlun sem fjallar um flýtimeðferð, en kemst þá að því að enginn slíkur kafli er í lögunum. Hvergi er gert ráð fyrir að þetta sé unnið með þeim hætti. Þetta er svona eftir hendinni, út af því að okkur langar til þess, út af því að okkur finnst að þetta eigi að vera svona. Þetta er algjör hentistefnupólitík. Hún birtist líka í því máli sem hér kemur fram og er til umfjöllunar, og gríðarlega alvarlegar athugasemdir er gerðar við málið af fjölmörgum umsagnaraðilum. Hvernig er brugðist við þeim? Jú, gerðar eru þrjár breytingar sem eru orðalagsbreytingar. Það eru engar efnisbreytingar á málinu. Ein af þeim fjallar um dagsetninguna, hvenær lögin taka gildi, vegna þess að málið var kynnt til sögunnar á síðasta ári og var gert ráð fyrir að það tæki gildi 1. janúar, en nú á það sem sagt að taka gildi nú þegar. Það eru engar efnislegar breytingar gerðar á málinu þrátt fyrir allar þær athugasemdir sem borist hafa og í rauninni ekki hlustað á ein einustu rök og engum rökum svarað á nokkrum stað.

Ég ætla að grípa aftur niður í umfjöllun Sambands íslenskra sveitarfélaga, en málið var til umfjöllunar í skipulagsmálanefnd sambandsins, og þess ber að geta að auðvitað koma í þingið fjölmargar umsagnir frá aðilum á borð við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem leggja yfirleitt gríðarlega mikla vinnu í umsagnir sínar. Þetta eru ekki einblöðungar sem kastað er saman heldur mjög vönduð lögfræðiálit sem vert er að gefa mjög góðan gaum að, vegna þess að það er mjög góð vinna sem býr þar að baki.

Hvað segir skipulagsmálanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga?

„Að áliti nefndarinnar er frumvarpið vanbúið og sérstaklega skortir mun vandaðri skýringar með því og skýrari rökstuðning fyrir þeim tillögum sem þar koma fram um skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Gagnrýnivert er að lítið sem ekkert er vikið að umhverfissjónarmiðum í frumvarpinu. Með tilliti til þeirra miklu annmarka sem eru á málinu telur nefndin koma til álita að Alþingi kalli eftir því að frumvarpið verði unnið betur og síðan lagt fram að nýju. Ef ekki þykir tilefni til þess verði í öllu falli vandað mjög til umfjöllunar um málið á Alþingi og því gefinn sá tími sem þarf til að hægt verði að ná sem víðtækastri sátt um málið.“

Þetta eru mjög góðar ábendingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og svör við þessum ábendingum hlýtur að vera að finna í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar. En nei, þessara athugasemda er hvergi getið. Það er bara látið eins og þær séu ekki til staðar, þeim er ekki svarað, þetta er ekki svaravert, þetta er bara eitthvert píp úti í bæ í einhverjum sveitarfélögum, skiptir engu máli. Eða hvernig á maður að lesa þá þögn sem stafar frá meiri hluta atvinnuveganefndar í málinu? Hvaða efnislegu rök hefur meiri hluti nefndarinnar gegn þessu? Bara að yppa öxlum, segja ekki neitt? Fara bara með málið inn í þingsal og klára það í atkvæðagreiðslu? Keyra það í gegn í krafti meiri hluta þingsins?

Þetta eru svo óvönduð vinnubrögð að ég hef eiginlega aldrei séð annað eins á þeim tíma sem ég hef verið hér í þinginu. Það er eins og meiri hluti nefndarinnar hafi einfaldlega ekki lagt í að fara efnislega í rökstuðning með sinni vinnu og sinni niðurstöðu. Það er eins og meiri hluti nefndarinnar hafi bara spurt Landsnet: Hvernig viljið þið hafa þetta? Við skulum redda því, við skulum bara sjá um að þetta verði nákvæmlega eins og þið viljið hafa þetta og við látum eins og við heyrum ekki nein mótrök.

Hvaða lýðræðishugsun býr að baki slíkum vinnubrögðum? Eru þetta í alvörunni vinnubrögð sem eiga að tíðkast í þinginu, að efnislegum rökum sé einfaldlega ekki svarað? Að menn haldi sínu fram eins og ekkert hafi í skorist og láti eins og gagnrýni hafi ekki komið fram? Það þarf að minnsta kosti, mundi ég halda, að svara svona, koma fram með efnisleg rök og segja: Ja, við viljum hafa þetta svona vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki verið í færum til að ákveða nokkurn skapaðan hlut. Menn verða þá að hafa hugrekki til að segja slíka hluti. En það eru engin slík rök uppi vegna þess að frumvarpið er bara afgreitt eins og á færibandi af hálfu nefndarinnar og engar breytingar gerðar.

Þess vegna er það mjög eðlileg krafa sem sett hefur verið fram af fjölmörgum í dag sem um málið hafa fjallað, að meiri hluti nefndarinnar ekki aðeins kalli málið inn milli 2. og 3. umr. og geri þær breytingar sem þarf að gera á málinu — vegna þess að ég held að það sé þannig vaxið að hægt sé að ná ágætissamstöðu um það í þinginu, það séu flestir sammála um að setja þurfi svona lög, eða allir, en ekki með þessum hætti. Þess vegna hefur það slys gerst að meiri hluti nefndarinnar hefur afgreitt málið úr nefndinni án þess að átta sig á því að þessi vinnubrögð eru algjörlega fyrir neðan allar hellur og ófullnægjandi. Málið þarf að vinna miklu betur, að gerð verði meiri krafa af hálfu sem starfa í þinginu til þingnefnda en birtast hér í flausturslega unnu meirihlutaáliti nefndarmanna í atvinnuveganefnd. Gerð er sú krafa til þeirra að þeir rökstyðji álit sitt, að þeir komi með efnisleg rök fyrir niðurstöðu sinni og sýni fram á nauðsyn þeirra breytinga sem verið er að leggja til, sýni fram á það með hvaða hætti skipulagsvald sveitarfélaganna á ekki heima hjá þeim í þessum efnum, af hverju það er, hvað hefur brugðist og hvernig þeir vilji leysa það. Þangað til er ekki hægt að taka þetta mál alvarlega. Þangað til er ekki hægt að búast við því að það hljóti neinn framgang hér í þinginu, ekki ef miðað er við viðtökur flokksbræðra og -systkina meiri hluta atvinnuveganefndar. Það eru nokkuð svona kuldalegar móttökur sem málið hefur fengið af stjórnarþingmönnum hér í dag, að minnsta kosti eru ekki margir þeirra að veifa fánum fyrir málinu hérna í þingsalnum eins og stendur.

Ég held því að ekki sé ofmælt að hér hafi hv. atvinnuveganefnd, meiri hluti hennar, náð ákveðnu lágmarki í störfum sínum á þinginu í því að koma með málið fullkomlega ótilbúið í þingsalinn. Það er í rauninni ekkert annað fyrir hana að gera en að kalla málið til baka, vinna það að sjálfsögðu í samstarfi við umhverfisnefnd og fara vandlega yfir þær umsagnir sem borist hafa, fara vandlega yfir umsagnir frá umhverfis- og samgöngunefnd, og skoða hvort ekki sé hægt að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru og ná betri samstöðu um að ljúka málinu. Það væri mannsbragur að því.