144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:28]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru mjög góðar spurningar sem hv. þingmaður kemur hér með. Auðvitað væri mjög æskilegt ef við ynnum þetta í réttri röð og í samhengi hlutanna þannig að menn ynnu með landsskipulag, menn ynnu með kerfisáætlanir, menn ynnu með rammaáætlun, og að það væri í samræmi við náttúruverndarlög, menn færu með það sem fer í friðun í rammaáætlun í friðlýsingu og við værum einfaldlega með almennilega náttúruverndarlöggjöf þannig að við þyrftum ekki að láta þennan málaflokk einkennast af því togi og þeim deilum sem hann gerir því miður.

Sú vinna sem unnin var af hálfu meiri hluta hv. atvinnuveganefndar er birtingarmynd af þeim deilum sem verið hafa um þessi mál í áratugi. Því miður birtist okkur þar það vantraust og sú tortryggni sem deilurnar hafa skapað, þ.e. að menn treysta sér ekki til þess til þess að láta aðra koma að vinnunni vegna þess að þeir eru hinum megin í skoðanaflórunni.

Við eigum auðvitað að fara með þessa hluti í umhverfismat. Við eigum að vera með meginreglu umhverfisréttarins virka í allri okkar vinnu, þ.e. að við látum náttúruna njóta vafans, að við séum ekki að skemma landið okkar, að við tryggjum að við nýtum þær auðlindir sem við búum yfir með sjálfbærum hætti þannig að við getum skilað þeim til næstu kynslóðar án þess að þær hafi verið eyðilagðar, án þess að gengið hafi verið á þær, svo börnin okkar hafi ekki minna úr að moða en við og helst meira. Þannig sé ég það fyrir mér, en mér finnst því miður ekki unnið í þeim anda hér.