144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Við sitjum saman í umhverfis- og samgöngunefnd, ég og hv. þingmaður. Ég er verulega hugsi yfir því hvar við erum stödd í þessu máli. Það hlýtur að vera meginmarkmið þingsins að vinna málið efnislega eins vel og nokkur kostur er, þ.e. að málið batni við þinglega meðferð, að það þéttist og verði betra. Til þess að er þingleg meðferð máls.

En við umræðuna hér er smám saman að koma betur og betur í ljós að í fyrsta lagi er frumvarpið gloppótt, þar vantar mikilvæg sjónarmið, og í öðru lagi hefur meiri hluti atvinnuveganefndar tekið málið til gagnrýnislausrar afgreiðslu.

Við í umhverfisnefnd tókum hlutverk okkar nokkuð alvarlega, við litum svo á að það væri raunverulegt verkefni að gefa atvinnuveganefnd umsögn. Við miðuðum við það að ramma inn þau mál sem heyra sérstaklega undir nefndina. Og hvaða mál eru það? Það eru umhverfissjónarmiðin, það eru skipulagssjónarmiðin og það eru málefni sveitarstjórnarstigsins. Við fengum til okkar gesti sem hafa með þessi efnissvið að gera.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Man hv. þingmaður eftir því að einhver þeirra aðila sem komu á fund nefndarinnar til að ræða þessa mikilvægu málaflokka; umhverfismál, sveitarstjórnarmál og skipulagsmál, hafi mælt frumvarpinu bót, hafi verið ánægðir með það og sagt: Látið vaða, þetta er bara virkilega gott frumvarp, vel unnið og ætti að fá hraða og örugga afgreiðslu í gegnum Alþingi?