144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fram kemur í umsögn skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga að frumvarpið sé vanbúið og að sérstaklega skorti á vandaðar skýringar með því og skýrari rökstuðning fyrir þeim tillögum sem þar eru lagðar fram og einkum að því er varðar skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaganna.

Ég verð að viðurkenna að með þeirri vinnu sem umhverfisnefnd lagði í málið og með því að hlusta á umræðuna hér og lesa niðurstöðu atvinnuveganefndarinnar þá er manni eiginlega algjörlega hulin ráðgáta af hverju í ósköpunum menn reyni ekki einu sinni að takast á við þá spurningu: Í fyrsta lagi, af hverju er þetta mál lagt fram með þeim hætti að það fari gegn skipulagsvaldi sveitarfélaganna? Í öðru lagi: Hvað mælir gegn því að kerfisáætlun, rétt eins og allar aðrar áætlanir sem varða landnotkun og ráðstöfun lands til langrar framtíðar, fari í gegnum opið og lýðræðislegt ferli?

Öll löggjöf sem við höfum verið að vinna undanfarin ár, sama hvort það er Árósasamningur, skipulagslög, lög um mat á umhverfisáhrifum, lög um rammaáætlun o.s.frv., snýst um að auka aðkomu almennings, að auka lýðræðislegt umboð bak við ákvarðanir. En hvað er gert hér? Hér er gengið í þveröfuga átt og það er eins og frumvarpið sé skrifað 1975, það er eins og hv. atvinnuveganefnd sé bara stödd þar í tímabeltinu.

Ég spyr: Áttar hv. þingmaður sig á því hvaða rök mæla beinlínis gegn því að þetta mál sé í takti við það sem almennt gerist í löggjöf að því varðar skipulag og ráðstöfun náttúrugæða, umhverfis og lands hér í þinginu?