144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður höfum staðið sameiginlega að lagasetningu sem fól það í sér að við vorum með einhverjum hætti að skerða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga um það hvar og hvernig þau geta skipulagt sitt umhverfi. Það var í lögum um rammaáætlun nema þar er gert ráð fyrir fjórum árum eins og hér en það sem er öðruvísi er að síðan er gert ráð fyrir tíu ára viðbótartíma. Sveitarfélag getur óskað eftir tíu ára viðbótartíma til að laga sig að rammaáætlun og jafnvel þremur síðan til viðbótar. Hér eru þetta hins vegar fjögur ár og ekkert meir. Annars staðar, t.d. í samgönguáætlun, er síðan enn annað kerfið o.s.frv.

Man hv. þingmaður eftir því að einhvers staðar í löggjöf um svona stórmál, af því að hún er gamall sveitarstjórnarmaður með reynslu þaðan, sé gengið jafn hart fram í því að skerða þennan sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga? Mér sýnist sem hérna sé gengið býsna skarpt fram og býsna mikið þrengt að mönnum. Eins og kom fram í samtali sem ég átti við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon mun það líklega valda því að menn verða í varnarviðbrögðum frá upphafi, þ.e. að menn fari að nýta allar kæruleiðir, allar leiðir mögulegar til að reyna að tefja ferlið. Því velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður geti aðeins velt þessu upp með mér, hvort hún muni eftir öðru eins og þá hvaða afleiðingar hún telji að þetta muni hafa.